Erlent

Landamærum Rúanda og Austur-Kongó lokað vegna ebólu

Kjartan Kjartansson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður hellir sótthreinsandi vökva á hönd konu í landamæraborginni Goma í Austur-Kongó. Landamærunum að Rúanda hefur verið lokað.
Heilbrigðisstarfsmaður hellir sótthreinsandi vökva á hönd konu í landamæraborginni Goma í Austur-Kongó. Landamærunum að Rúanda hefur verið lokað. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Rúanda hafa lokað landamærum sínum að Austur-Kongó vegna ebólufaraldursins sem geisar þar. Um 1.800 manns hafa látið lífið af völdum veirunnar, þar á meðal tveir í landamæraborginni Goma í síðasta mánuði.

Ákvörðunin um að loka landamærunum gengur þvert gegn ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem lagðist gegn því að ríki reyndu að halda veirunni í skefjum með því að takmarka ferðir fólks eða viðskipti, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Skrifstofa forseta Austur-Kongó segir að um einhliða ákvörðun stjórnvalda í Rúanda hafi verið að ræða. Stjórnvöld í Austur-Kongó harmi hana.

Ebólufaraldurinn er sá skæðasti í sögu Austur-Kongó. Að minnsta kosti 2.700 manns hafa smitast í héruðunum Norður-Kivu og Ituri. Goma er höfuðborg Norður-Kivu og um tvær milljónir manna búa þar.

Mikil samgangur er á milli Goma og borgarinnar Gisenyi í Rúanda hinum megin við landamærin. Það hefur vakið áhyggjur um að veiran gæti borist til Rúanda. Engin tilfelli hafa verið staðfest þar ennþá en yfirvöld hafa komið upp meðferðastöðum og einangrunarmiðstöðvum til öryggis.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.