Íslenski boltinn

Sjáðu markið sem var dæmt af og gæti kostað Blika titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg skoraði gegn Þór/KA en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Berglind Björg skoraði gegn Þór/KA en markið var dæmt af vegna rangstöðu. vísir/daníel
Íslandsmeistarar Breiðabliks töpuðu sínum fyrstu stigum á heimavelli í Pepsi Max-deild kvenna í sumar þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Þór/KA í gær.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom reyndar boltanum í netið á 56. mínútu en var dæmd rangstæð sem var rangur dómur.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir tók hornspyrnu, Alexandra Jóhannsdóttir skallaði boltann á Berglindi sem tók boltann á lærið, sneri og skoraði framhjá Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í marki Þórs/KA.

Aðstoðardómarinn lyfti flaggi sínu til marks um rangstöðu. Í endursýningu sást að Berglind var alltaf fyrir aftan Huldu Björgu Hannesdóttur sem gætti hennar. Ekki munaði þó miklu eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Markið sem var tekið af Blikum


Þessi dómur gæti haft mikil áhrif á það hvaða lið stendur uppi sem Íslandsmeistari í haust. Breiðablik er með eins stigs forskot á Val á toppi deildarinnar en Valskonur eiga leik til góða. Með sigri á botnliði HK/Víkings á föstudaginn eftir viku nær Valur tveggja stiga forskoti á toppnum.

Breiðablik og Valur mætast í sautjándu og næstsíðustu umferð deildarinnar en flestir búast við að það verði hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×