Fótbolti

Cloé ekki orðin lögleg með íslenska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cloé í leik með ÍBV. Hún fór á dögunum til Benfica í Portúgal.
Cloé í leik með ÍBV. Hún fór á dögunum til Benfica í Portúgal. vísir/daníel
Cloé Lacasse, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt í sumar, var ekki valin í íslenska landsliðshópinn sem mætir Ungverjalandi og Slóvakíu í undankeppni EM 2021 um næst mánaðarmót.

Að sögn landsliðsþjálfarans Jóns Þórs Haukssonar er Cloé ekki enn komin með leikheimild með íslenska landsliðinu.

„Hún er ekki komin með leikheimild frá FIFA þannig að hún kom ekki til greina í hópinn að þessu sinni,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi eftir blaðamannafundinn þar sem landsliðshópurinn var tilkynntur.

En hefði Jón Þór valið Cloé ef hún hefði mátt spila með landsliðinu?

„Það er ómögulegt að svara þeirri spurningu. Hún var ekki inni í myndinni og þess vegna ræddum við það ekkert,“ sagði Jón Þór.

Skagamaðurinn vonast til að mál Cloé leysist á næstu mánuðum.

„Vonandi gerist það fljótlega á næsta ári en við getum ekki svarað því á þessari stundu,“ sagði Jón Þór.

Cloé skoraði ellefu mörk í tólf leikjum með ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna áður en hún fór til Benfica í Portúgal. Cloé, sem er frá Kanada, skoraði 63 mörk í 91 leik með ÍBV í deild og bikar.


Tengdar fréttir

Cloé Lacasse gengin til liðs við Benfica

Cloé Lacasse hefur samið við portúgalska félagið Benfica og mun því yfirgefa ÍBV. Lacasse greindi frá þessu á samfélagsmiðlum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×