Umfjöllun og viðtöl: Valur 7-0 HK/Víkingur | Botnliðið fallbyssufóður fyrir Valsara

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/daníel
HK/Víkingur átti aldrei möguleika þegar þeir sóttu heim Val á Origo-vellinum í kvöld. Valur gjörsamlega gekk frá þeim, skoraði 7 mörk og fékk ekkert á sig.

Valur stjórnaði leiknum algjörlega frá upphafi til enda en þær voru ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Elín Metta Jensen kom liðinu yfir á 8. mínútu leiksins.

HK/Víkingur lá neðarlega á vellinu og náði að halda Valsliðinu í skefjum fyrstu 30-40 mínúturnar af leiknum. Eftir að Valur náði að setja annað markið sitt opnuðst flóðgáttirnar og áður en yfir lauk hafði liðið skorað 7.

Af hverju vann Valur?

Gæðamunurinn á liðunum var algjörlega augljós í kvöld. HK/Víkingur reyndi bara að leggja rútunni og sækja hratt en það kom samt ekki í veg fyrir markaregn.

Valur er með valinn mann í hverri stöðu og erfitt að sjá þær ekki lyfta titlinum í lok sumars.

Hvað gekk illa?

Ótrúlegt en satt þá gekk Valsliðinu ekki mjög vel í byrjun leiks. Þær héldu boltanum en voru ekki að ná að gera mikið með hann og var smá óróleiki í spilinu.

Eftir að þær náðu að setja annað markið batnaði spilamennskan ásamt því sem HK/Víkingur fór framar sem opnaði stærri svæði fyrir Valsarana að nýta sér.

Hverjir stóðu upp úr?

Elín Metta Jensen skoraði tvö mörk í dag og gestirnir réðu eiginlega ekkert við hana. Dóra María Lárusdóttir enn og aftur eins og hershöfðingi á miðjunni. Þá átti Fanndís ágætis leik í dag og skoraði tvö mörk. Vörnin hafði ekki mikið að gera en tók á því sem þurfti að taka á og Guðný Árnadóttir fór þar fremst í flokki.

Það er ekki marga hægt að taka úr liði gestanna. Þrátt fyrir að hafa fengið 7 mörk á sig þá átti Audrey Rose Baldwin margar fínar vörslur og vörnin fær hrós fyrir að þurfa að vera á fullu nánast allar 90 mínúturnar.

Hvað gerist næst?

Valur fær ágætis hlé núna en næsti leikur þeirra er ekki fyrr en 21. ágúst gegn Selfossi. Þá er ekki amalegt að koma sér fyrir á toppnum og loksins fær liðið að halda því út af fyrir sig.

HK/Víkingur er áfram á botni deildarinnar með 7 stig en þær eiga mikilvægan leik gegn Fylki í næstu umferð. Liðið stefnir niður í 1. deild með þessu áframhaldi.

Guðný Árna: Þurfum alltaf að vera klárar

Guðný Árnadóttir, varnarmaður Vals, var ánægð með stórsigurinn gegn HK/Víkingi.

„Þetta var góð frammistaða hjá liðinu og ég er ánægð með 3 stig. 7 mörk, auðvitað.”

En er þetta það mesta sem Valur hefur skorað í sumar?

„Guð, ég veit það ekki... jú er það ekki?” sagði Guðný en við nánari athugun má sjá að stærsti sigur Vals til þessa var 6-0 sigur á Fylki og er leikurinn í dag því bæting á stærsta sigri liðsins hingað til.

Guðný sagði að þrátt fyrir að þær væru að mæta neðsta liðinu mætti ekki vanmeta það.

„Maður þarf klárlega að vera með fókus alltaf. Það getur alltaf komið langur bolti inn fyrir, það sýnir sig að það geta öll lið fengið á sig mark og við þurfum alltaf að vera klárar.”

Frammistaðan var góð í leiknum en fyrri hálfleikurinn hefði getað gengið aðeins betur að sögn Guðnýjar.

„Mér fannst við byrja vel, við fengum mark mjög snemma í leiknum. Við vorum pínu kærulausar næstu mínútur þangað til við náðum inn öðru markinu. Við hefðum getað verið rólegri á boltanum og spilað betur en í seinni hálfleik tókum við öll völd, spiluðum rosa vel og skorum góð mörk.”

„Okkur fannst við eiga meira inni og við komum brjálaðar út í seinni hálfleikinn.” bætti Guðný við.

Eiður Benedikt: Andstæðingurinn kom okkur í opna skjöldu

„Já, algjörlega. Mér fannst við vera seinar í gang en þegar það voru 10 mínútur eftir af fyrri hálfleik þá small þetta hjá okkur og við fórum að gera hlutina vel og eins og við ætluðum að gera. Þetta var flottur sigur.” sagði Eiður Benedikt Eiríksson, þjálfari Vals, aðspurður hvort hann væri ánægður með frammistöðuna en lið hans skoraði 7 mörk í stórsigri.

Val gekk erfiðlega að skapa sér færi í fyrri hálfleik en um leið og seinni hálfleikurinn gekk í garð opnuðust flóðgáttirnar.

„Andstæðingurinn HK/Víkingur kom okkur aðeins í opna skjöldu hvernig þær vörðust, þær fóru neðarlega með sitt lið og við vorum í smá ströggli að finna hvar opnu svæðin voru. Við annað markið þá tókum við öll völd á vellinum og þær áttu engin svör við því.”

„Auðvitað þurftu þær að færa sig aðeins framar í byrjun seinni hálfleiks og ætluðu að reyna að ná inn þessu eina marki því 2-0 forysta, leikurinn er ekki unninn. En þegar við náðum 3. markinu þá vissum við að þetta væri í rauninni "walk in the park."”

„Það má ekki taka það af liðinu að við gerðum rosalega vel í fyrstu pressu, við unnum boltann framarlega á vellinum og að sama skapi erum við með tvo frábæra hafsenta sem leystu þetta rosalega vel.”

Stigin 3 í dag færa liðinu toppsætið. Valur er ekkert ókunnugt þar um slóðir en eru óvanir að sjá ekki Blika deila sætinu með þeim.

„Þau eru eins mikilvæg og hin 3 stigin sem við erum að fá í öllum hinum leikjunum. Þetta gefur okkur andrými á toppnum. Núna erum við með tveggja stiga forskot, við höfum ekki haft það fyrr í sumar þannig að það er frábært.” sagði Eiður að lokum.

Rakel Loga: Varla hægt að bera þessi lið saman

Rakel Logadóttir, þjálfari HK/Víkings, var ekkert að svekkja sig of mikið á hlutunum þrátt fyrir að liðið hennar hafi fengið 7-0 skell. Hún segir að þessi lið séu ekki samanburðarhæf.

„Þetta var erfiður leikur fyrir okkur, eðlilega, við vorum að spila gegn hálfu landsliðinu þarna. Það er varla hægt að bera þessi lið saman þegar kemur að gæðum á leikmönnum.”

„En ég var ánægð með mínar stelpur, mjög góð barátta og þær héldu haus allan leikinn þó við höfum fengið á okkur mikið af mörkum í seinni hálfleik og við fengum færi á 83. mínútu sem við skoruðum ekki úr. En við héldum áfram og ég er ánægð með það.”

Það voru eflaust ekki margir ef nokkrir sem héldu að HK/Víkingur gæti gert eitthvað í þessum leik en hvernig nálgaðist liðið eiginlega leikinn gegn þessum ógnarsterka andstæðingi?

„Við ætluðum bara eins og maður segir á enskunni, "park the bus." Við ætluðum að liggja lágt og beita skyndisóknum. Mér fannst þær halda nokkurn veginn skipulaginu allan leikinn.”

„Það var á planinu, að liggja lágt með 5 manna línu og stoppa Fanndísi og Hallberu, það tókst alveg þokkalega. Elín Metta var svolítið öflug og okkur tókst ekki alveg að stöðva hana en við vorum að loka svæðunum á köntunum, þær vilja vera þar og ég vissi það alveg.”

Skipulagðið dugði þó ekki til að stoppa sóknarlínu Vals allan leikinn en Rakeli var nokkurn veginn saman um stærð tapsins.

„Ég held að stelpurnar mínar séu orðnar þreyttar, þær voru búnar að hlaupa mikið og smá einbeitingarleysi. En þær reyndu alltaf að halda skipulagi og ég er mjög ánægð með það.”

„Það skiptir engu máli fyrir okkur. Þú getur tapað 1-0 eða 10-0, það skiptir engu máli. Þetta er bara 1 stig, 0 stig eða 3 stig. Við erum að vinna í ákveðnum hlutum í varnarleiknum og þetta var gott og stórt test fyrir það. Við höldum áfram að vinna í þessum hlutum.”

„Það eru nokkrir leikir eftir en við tökum bara einn leik í einu og næsti leikur gegn Fylki er gríðarlega mikilvægur leikur og þar ætlum við að taka þrjú stig. Við reynum.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira