Innlent

Réðust á mann sem beið eftir strætó

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn, auk fleira fólks, var að bíða eftir strætisvagni þegar ráðist var á hann. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Maðurinn, auk fleira fólks, var að bíða eftir strætisvagni þegar ráðist var á hann. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/vilhelm
Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var um ellefuleytið í gærkvöldi tilkynnt um líkamsárás í Grafarvogi. Þar var ráðist á mann sem beið eftir strætisvagni. Í dagbók lögreglu segir að tönn hafi brotnað í manninum við árásina en vitað sé um gerendur. Lögregla hefur þegar rætt við þá.

Um klukkan hálf sjö í gær var tilkynnt um þjófnað á fatnaði úr verslun í miðbænum. Ung kona sem grunuð er um þjófnaðinn var handtekin skömmu síðar og vistuð í fangageymslu. Á sjöunda tímanum var svo tilkynnt um innbrot og þjófnað í bifreið í miðborginni en þar hafði verið brotin rúða og dekkjum stolið.

Þá var lögregla kölluð til vegna manns í annarlegu ástandi í verslun í Hlíðunum. Maðurinn var handtekinn sökum ástands og vistaður í fangageymslu.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um varðeld á Laugarnestanga. Þar voru erlendir ferðamenn að grilla sér kvöldmat og engin hætta á ferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×