Innlent

Áttfætlan langleggur fannst óvænt í Surtsey

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Áttfætlan langleggur fannst í Surtsey í síðustu viku.
Áttfætlan langleggur fannst í Surtsey í síðustu viku. erling ólafsson
Farið var í árlegan leiðangur vísindamanna út í Surtsey í síðustu viku. Í leiðangrinum fundust þrjár nýjar tegundir, ein ný plöntutegund og tvær nýjar pöddutegundir.

Fjallað er um leiðangurinn á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands en það eru líffræðingar stofnunarinnar sem fara árlega í eyjuna.

Þá var sérfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands með í för sem og tveir fornleifafræðingar og landvörður frá Umhverfisstofnun.

Nýja plöntutegundin sem fannst í leiðangrinum er hóffífill. Sölnuð laufblöð sýndu að fífillinn hefur einnig verið í eynni síðasta sumar og er talið líklegt að hann hafi borist með vindum til eyjarinnar.

Þrátt fyrir þessa nýju tegund hefur fækkað um eina plöntutegund í Surtsey frá því í fyrra þar sem tvær tegundir, hnjáliðagras og ljónslappi fundust ekki á lífi nú. Hnjáliðagras hafði vaxið á eynni í áraraðir en ljónslappi fannst nýr árið 2015.

Nýju pöddutegundirnar eru síðan annars vegar hvannuxi, bjöllutegund af ætt jötunuxa, og áttfætlan langleggur. Á vef Náttúrufræðistofnunar segir að mjög óvænt hafi verið að finna áttfætluna langlegg í Surtsey:

„Þó hann sé algeng tegund á landinu og útbreidd var ólíklegt talið hann myndi berast svo langt á haf út til að nema nýtt land. Tvö eintök fundust og bendir það til þess að langleggurinn sé mættur til leiks í eynni,“ segir á vef Náttúrufræðistofnunar þar sem lesa má nánar um leiðangur vísindamannanna.

Surtsey varð til í Surtseyjargosinu sem stóð frá því í nóvember 1963 þar til í júní 1967.

Eyjan var friðlýst árið 1965 og fer Umhverfisstofnun með umsjón friðlandsins. Ekki er leyfilegt að fara í eyna eða að kafa við hana nema með leyfi stofnunarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×