Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Þór/KA 3-0 | Kærkominn sigur í Árbænum

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/bára
Fylkir vann langþráðan sigur í Pepsí Max deild kvenna í kvöld þegar liðið lagði Þór/KA að velli, 3-0. Fylkir hafði ekki unnið deildarleik síðan 13 maí.

Fylkir sem sat á botni deildarinnar fyrir leikinn í kvöld mætti af krafti til leiks og hafði öll tök á leiknum frá fyrstu mínútu. Þór/KA var án sinna bestu leikmanna og það var auðsjáanlegt að þeirra var sárt saknað í kvöld. 

Fyrsta markið kom eftir rúmlega 10 mínútna leik, Ída Marín Hermannsdóttir kom þar heimamönnum í forystu eftir góða skyndisókn. Fylkis stúlkur pressuðu stíft í fyrri hálfleik og bættu í forystuna undir lok hálfleiksins, Hulda Hrund Arnarsdóttir, var þar á ferðinni með frábært mark rétt utan teigs og það var Fylkir sem leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 2-0.

Það varð lítil breyting á leik Akureyringa í síðari hálfleik og Fylkir hélt áfram að stjórna ferðinni í Lautinni. Heimakonur voru allan tímann líklegri til að bæta við á meðan Þór/KA tókst ekki að skapa sér neitt af viti. Það féll svo í skaut varamannsins, Margrétar Bjargar Ástvaldsdóttur, að skora þriðja mark Fylkis þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. 

Eftir þriðja markið hægðist á leiknum og lítið gerðist á síðasta kaflanum. Fylkir sigldi heim þremur langþráðum stigum og fögnuðu innilega sínum fyrsta sigri í langan tíma, lokatölur í Árbænum, 3-0. 

Af hverju vann Fylkir? 

Fylkir mætti töluvert ákveðnara til leiks, þær keyrðu vel á vængbrotið lið Þórs/KA sem virtist ekki hafa trú á verkefninu. 

Hverjar stóðu upp úr?

Leikmenn Fylkis voru að spila virkilega vel í dag og þar ber helst að nefna þær, Thelmu Lóu Hermannsdóttir og Huldu Hrund Arnarsdóttir sem pressuðu stíft frammá við. Stefanía Ragnarsdóttir spilaði einnig virkilega vel sem og Berglind Rós Ágústsdóttir. 

Hvað gekk illa? 

Þór/KA átti í erfiðleikum í dag, sérstaklega sóknarlega. Þær voru án sinna allra bestu leikmanna, Stephany Mayor, Bianca Elissa, Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur og markmannsins, Bryndísar Láru Hrafnkelsdóttur. Þetta eru vissulega stór nöfn sem vantar á skýrsluna en burt séð frá því þá áttu Akureyringar ekkert skilið útúr þessum leik. 

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð fær Þór/KA ÍBV í heimsókn á meðan Fylkir fer í Vesturbæinn þar sem þær mæta KR.

 

Donni er bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir enn eitt tapiðvísir/anton
Donni: Það myndu öll lið sakna þeirra.

„Þetta eru vonbrigði“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þór/KA eftir leikinn

„Mér fannst stelpurnar bara leggja sig alla fram, þær gáfu allt í þetta en það bara dugði ekki í dag“

Þór/KA átti ekkert skilið útúr þessum leik í dag og segir Donni að Fylkir hafi átti sigurinn fyllilega skilið. Hann var þó ánægður með framlag sinna stúlkna í leiknum og tekur margt jákvætt með sér þrátt fyrir enn eitt tapið

„Ég var ánægður með þær að mörgu leyti, þær gáfust aldrei upp og við náðum fullt af góðum spilköflum. Við vorum bara óheppnar að ná ekki að skora. 

„Fylkis-liðið var frábært og átti þennan sigur skilið, verðskuldað hjá þeim“

Ekkert lið vill spila án sinna bestu leikmanna og segir Donni að ekkert lið vilji vera án fimm byrjunarliðs leikmanna. Hann hrósar þó innkomu þeirra ungu leikmanna sem komu inn og þakkar þeim þeirra framlag í dag 

„Klárlega saknar maður góðra leikmanna, sérstaklega þegar þetta eru fimm byrjunarliðs leikmenn. Öll lið myndu saknar þeirra. Enn ég var ánægður með þær stelpur sem komu inn í dag, þær lögðu sig alla fram.“

„Við leggjum alla leiki upp eins vel og við getum. Við reynum að vinna alla leiki eðlilega, stundum gengur það upp en stundum ekki“ sagði Donni

En hvenær á Þór/KA von að sínum leikmönnum inn aftur? 

„Vá, þetta er million dollar question, það er bara langt í marga og stutt í suma. Við fáum líklega engan inn fyrir næsta leik, vonandi einhvern fyrir þann næsta enn svo ættum við að fara að detta í fullmannað lið fljótlega eftir það.“ sagði Donni að lokum

 

Kjartan: Ég hefði viljað fleiri mörk

„Gríðalega ánægður, sáttur við leikinn í heild sinni og frammistöðuna“ voru fyrstu viðbrögð Kjartans Stefánssonar, þjálfara Fylkis. 

“Ég hefði kannski viljað fleiri mörk. Þetta var þannig leikur að við hefðum getað skorað fleiri mörk en 3-0 sigur er gott fyrir okkur.“ 

Kjartan viðurkennir að það sé ekki oft að hann sé ósáttur við hafa ekki skorað fleiri mörk eftir 3-0 sigur í sumar en hann sé gríðalega sáttur við frammistöðuna og að þessi sigur gefi stelpunum mikilvægt sjálfstraust fyrir framhaldið

“Eftir undanfarna leiki þá er þetta kærkomið, það er ekki spurning. Sigur í dag gefur okkur góða von um framhaldið.“ sagði Kjartan sem segir þetta gríðalega mikilvægt uppá framhaldið að gera

Kjartan segir að þau séu ekki að telja það eftir sér þegar þeim vanti leikmenn enn að sjálfsögðu skilji hann vel stöðuna sem Þór/KA er í og einnig hrósar hann þeim ungu leikmönnum sem spiluðu í dag

„Við vissum alveg að þeim vantaði sterka leikmenn en þó að það væru að koma ungar stelpur að þá eru þær vel inní þessu og spiluðu vel. Þetta lið er vel æft og vel samansett þrátt fyrir að þarna séu leikmenn úr 3. flokki“ sagði Kjartan að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira