Erlent

Hafna frumvörpum ætlað að tryggja öryggi kosninga þvert á viðvörun Mueller

Eiður Þór Árnason skrifar
Sömu þingmenn Repúblikanaflokksins hafa gert lítið úr niðurstöðum Mueller.
Sömu þingmenn Repúblikanaflokksins hafa gert lítið úr niðurstöðum Mueller. Vísir/AP
Lagafrumvörpum sem ætlað var að bæta öryggi kosninga í Bandaríkjunum komust ekki í gegnum öldungadeild Bandaríkjaþings í dag. Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins lögðust gegn frumvörpunum, sem þegar höfðu verið samþykkt í fulltrúadeild þingsins þar sem Demókratar njóta meirihluta.

Niðurstaðan er sögð vekja sérstaka athygli í ljósi þess að frumvörpunum var hafnað aðeins fáeinum klukkustundum eftir að Robert Mueller, sem stýrði rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016, varaði þingmenn við áframhaldandi tilraunum erlendra valdhafa til að hafa áhrif á framgöngu kosninga þar í landi.

Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa áður haldið því fram að þingið hafi nú þegar gert sitt til að tryggja öryggi næstu forsetakosninga, sem fram munu fara á næsta ári.

Markmið frumvarpanna var meðal annars að gera frambjóðendum skylt að tilkynna allar tilraunir erlendra aðila til afskipta af kosningum til alríkisyfirvalda. Einnig var þeim ætlað tryggja frekar öryggi tækja í eigu öldungadeildarþingmanna og starfsliðs þeirra gagnvart innbrotum tölvuþrjóta.

Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta Repúblikana í öldungadeildinni, sagði að frumvörpum sem yrði gert að tryggja öryggi kosninga þyrftu að njóta stuðnings þvert á flokka. Hann sagði frumvörpin einnig koma úr ranni þingmanna Demókrata sem hafi talað fyrir „samsæriskenningu“ um tengsl milli Rússlands og kjörs Trump Bandaríkjaforseta.


Tengdar fréttir

Mueller var tregur í taumi en gagnorður um afskipti Rússa

Demókrata og repúblikanar reyndu að fá Mueller til að hjálpa málstað sínum en hann þráaðist við. Harðorðastur var hann um afskipti Rússa af kosningum og vilja framboðs Trump til að taka við aðstoð.

Trump tísti um óánægju með vitnisburð Muellers

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór með rangt mál þegar hann sagði að rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á Rússamálinu hafi leitt í ljós að forsetinn væri alsaklaus af ásökunum um að hann hafi hindrað framgang réttvísinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×