Innlent

Hrundi niður stiga á skemmtistað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Margt var um að vera í miðborginni í gærkvöldi og nótt.
Margt var um að vera í miðborginni í gærkvöldi og nótt. Vísir/vilhelm
Ellefu einstaklingar voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna margvíslegra lögbrota, en lögreglan segir að alls hafi 66 mál ratað inn á hennar borð frá klukkan 17 síðdegis í gær til klukkan 5 í morgun.

Til að mynda reyndi maður, vopnaður hnífi, að brjótast inn í húsnæði í miðborginni skömmu eftir miðnætti. Lögreglan greinir ekki frá því hvað vakti fyrir manninum eða hvort einhver hafi verið innandyra, aðeins að maðurinn hafi verið handtekinn.

Lögreglan segist einnig hafa aðstoðað mann sem slasaðist á skemmtistað í miðborginni um svipað leyti. Hann á að hafa hrunið niður stiga og fengið skurð á höfuðið. Því hafi hann verið fluttur með sjúkrabíl á slysadeild þar sem hlúð hefur verið að sárum hans.

Þá fékk lögreglan jafnframt tilkynningar um innbrot í bifreið og slagsmál í miðborginni á áttunda tímanum í gærkvöldi. Ekki fylgir þó sögunni hvort einhver hafi verið handtekinn í tengslum við þau mál eða hvort nokkur liggi undir grun.

Tveir einstaklingar voru þó staðnir að búðarhnupli í gærkvöldi; annar í Garðabæ en hinn í Breiðholti. Þá var karlmaður handtekinn í Kópavogi á fimmta tímanum í morgun, en hann er grunaður um að hafa reynt að brjótast inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×