Erlent

Leggja hið umdeilda frumvarp ekki fram á ný

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Carrie Lam segist ekki vera á útleið.
Carrie Lam segist ekki vera á útleið. Nordicphotos/AFP
Frumvarp stjórnvalda í kínverska sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong um að heimila framsal til meginlands Kína er nú „dautt“. Þetta sagði Carrie Lam, æðsti stjórnandi borgarinnar, í gær. Áður hafði hún sagt að frumvarpið myndi „deyja á næsta ári“.

Ef marka má orð Lam má því ekki eiga von á að stjórnvöld reyni að koma frumvarpinu aftur í gegnum þingið í bráð. Ástæðan er sú að borgarbúar hafa flykkst út á götur frá því í lok mars til þess að mótmæla. Talið er að milljónir hafi tekið þátt í mótmælunum en eftir að frumvarpið var dregið til baka hafa mótmælendur krafist afsagnar Lam og þess að lögregla leysi úr haldi þá tugi mótmælenda sem voru handteknir.

„Það heyrast enn efasemdir um hvort stjórnvöldum sé alvara með því að draga frumvarpið til baka og hvort þau muni einfaldlega leggja það fram á ný. Þannig að ég endurtek nú, það eru engin slík áform uppi. Frumvarpið er dautt,“ sagði Lam og bætti því við að vinna stjórnvalda við frumvarpið verði að teljast „alfarið misheppnuð“.

Þá sagði Lam afsögn afar flókna. Hún hefði enn ástríðu fyrir því að gegna starfinu. „Ég vona að samfélagið í Hong Kong gefi okkur tækifæri til þess að svara kallinu um bætt lífskjör.“




Tengdar fréttir

Ekkert táragas til Hong Kong

Stjórnvöld á Bretlandi ákváðu í gær að banna sölu á öllum verkfærum sem óeirðalögreglumenn nota, til að mynda táragasi, til Hong Kong. Sömuleiðis var kallað eftir rannsókn á átökum lögreglu og mótmælenda í kínverska sjálfstjórnarhéraðinu.

Vilja stilla til friðar í Hong Kong sem fyrst

Sérstök skrifstofa Kommúnistaflokks Kína í höfuðborginni Peking um málefni Hong Kong og Macau fordæmdi í gær áhlaup sem mótmælendur í Hong Kong gerðu á þinghús sjálfstjórnarhéraðsins á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×