Ólafur: Maribor miklu betra lið en Rosenborg

„Þetta er hundfúlt en það var samt margt jákvætt í okkar leik,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir tapið fyrir Maribor, 0-3, í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Valsmenn héldu sjó og gott betur í fyrri hálfleik en á 42. mínútu komst Maribor yfir með marki eftir fast leikatriði.
„Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi hjá okkur. Þeir sköpuðu sér engin færi. Reyndar gerðum við það ekki heldur fyrir utan skotið hjá Patrick [Pedersen]. Við vorum með fína stjórn á leiknum en fengum á okkur mark úr aukaspyrnu. Annað markið var feykilega gott og erfitt að koma í veg fyrir það. Og eftir það var þetta erfitt,“ sagði Ólafur.
„Það er alltaf svekkjandi að fá svona mark á sig, eftir aukaspyrnu. Annað markið var geggjað og ekkert við því að gera en það er fúlt að fá á sig mark eftir aukaspyrnu.“
Maribor er með gríðarlega sterkt lið og sýndi mátt sinn og megin í seinni hálfleiknum.
„Þetta er eitt sterkasta lið sem ég hef spilað við í Evrópukeppni,“ sagði Ólafur. Hann segir að Maribor sé mun sterkara lið en Rosenborg sem sló Val út úr Meistaradeildinni í fyrra.
„Þeir eru miklu betri,“ sagði þjálfarinn að lokum.
Tengdar fréttir

Leik lokið: Valur - Maribor 0-3 | Einvíginu svo gott sem lokið
Valur er í erfiðri stöðu eftir fyrri leikinn gegn Maribor.