Erlent

Barry aftur orðinn stormur

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikilla flóða hefur gætt í Louisiana síðustu daga.
Mikilla flóða hefur gætt í Louisiana síðustu daga. Vísir/AP
Fellibylurinn Barry sem skall að ströndum Louisiana-ríkis í Bandaríkjunum hefur aftur verið færður niður í flokk hitabeltisstorms. Barry náði styrk fellibyls stuttu áður en hann náði landi en dregið hefur úr styrk hans síðan þá.

Barry náði landi nálægt Intracoastal City, sem er um 260 kílómetra vestur af New Orleans. Stöðugur vindstyrkur stormsins er fallinn niður í 31 metra á sekúndu en hann hafði áður náð hærri styrk.

Veðurfræðingar í New Orleans hafa hvatt íbúa borgarinnar til þess að sýna þolinmæði og vera á verði, þar sem búist er við mikilli úrkomu næstu daga, sökum stormsins.

Veðurlíkön gera ráð fyrir úrkomu á bilinu 25 til 50 sentimetrar í suður- og suðausturhluta Louisiana og suðvesturhluta Mississippi.

Veðurstofa Bandaríkjanna gaf í morgun út yfirlýsingu þar sem varað var við úrkomu upp á sjö og hálfan sentimetra á klukkustund.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi á svæðinu sem gert er ráð fyrir að stormurinn hafi hvað mest áhrif á. Þannig er hægt að notast við ýmis úrræði til þess að varna tjóni á fólki og öðru, sem annars væru ekki á valdi einstakra ríkja.


Tengdar fréttir

Barry orðinn fellibylur

Hitabeltisstormurinn Barry sem berst nú að ströndum Louisiana hefur náð styrk fellibyls en búist er við að hann skelli að ströndum ríkisins seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×