Fótbolti

Griezmann: Viðbrögð Atletico leiðinleg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antoine Griezmann var kynntur til leiks hjá Barca í gær
Antoine Griezmann var kynntur til leiks hjá Barca í gær vísir/getty
Antoine Griezmann segir það leiðinlegt hvernig Atletico Madrid hafi brugðist við félagsskiptum hans yfir til Barcelona.

Griezmann var í gær kynntur til leiks hjá Börsungum eftir að Barcelona gekk loks frá kaupunum á Frakkanum, en félagsskiptin höfðu verið yfirvofandi í langan tíma.

Barcelona borgaði 120 milljón evra uppsagnarákvæði í samningi Griezmann við Atletico. Uppsagnarákvæðið var hins vegar 200 milljónir evra allt þar til 1. júlí síðast liðinn og halda forráðamenn Atletico því fram að Griezmann og Barcelona hafi komist að samkomulagi fyrir þá dagsetningu og hafa því sent in kvörtun vegna félagsskiptanna.

Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni ætlar Atletico að ganga svo langt að fara með málið fyrir alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA.

„Þetta er leiðinlegt. Ég fór til fundar við þá sérstaklega til þess að láta þá vita að þetta væri að fara að gerast svo þeir yrðu viðbúnir,“ sagði Griezmann á blaðamannafundi Barcelona í gær.

Griezmann var í fimm ár hjá Atletico þar sem hann skoraði 133 mörk í 257 leikjum.

„Ég ber ekkert nema umhyggju í garð Atletico. Ég er þeim mjög þakklátur en nú þarf ég að finna minn stað hjá Barcelona.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×