Erlent

Réttað aftur yfir konu sem var dæmd fyrir að eignast andvana barn

Kjartan Kjartansson skrifar
Evelyn Hernández (t.h.) í dómsal í Delgado-borg utan við höfuðborgina San Salvador.
Evelyn Hernández (t.h.) í dómsal í Delgado-borg utan við höfuðborgina San Salvador. Vísir/AP
Kona frá El Salvador lýsti sig saklausa af manndrápi þegar réttarhöld hófust yfir henni í annað sinn í gær. Hún var dæmd í þrjátíu ára fangelsi fyrir þungunarrof eftir að hún fæddi barn sem hún sagði að hefði komið andvana í heiminn. Þungunarrofslög í El Salvador er á meðal þeirra ströngustu í heimi.

Evelyn Hernández, sem er 21 árs gömul, hafði afplánað þrjú ár af þrjátíu ára fangelsisdóminum þegar henni var sleppt úr haldi í febrúar. Þá hafði hæstiréttur landsins úrskurðað að réttað skyldi aftur í máli hennar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Saksóknarar fullyrða að Hernández hafi vísvitandi eytt fóstri sínu og vísa til þess að hún hafi aldrei farið í mæðraskoðun. Fóstrið var 32 vikna gamalt en réttarmeinafræðingar gátu ekki úrskurðað hvort það hafi gefið upp öndina í móðurkviði eða utan hans. 

Sjálf segist hún ekki hafa vitað að hún væri með barni og að það hafi verið andvana fætt á kamri, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Við upphaflegu réttarhöldin sagði Hernández að henni hafi ítrekað verið nauðgað en að hún hafi verið of óttaslegin til að kæra.

Þungunarrof er bannað undir öllum kringumstæðum í El Salvador. Tugir kvenna sem segjast hafa misst fóstur eða fætt andvana börn hafa verið dæmdar í fangelsi. Oft er um að ræða fátækar og ungar konur sem hafa í mörgum tilfellum verið fórnarlömb kynferðisofbeldis.

„Það sem Evelyn gengur í gegnum er martröð margra kvenna í El Salvador,“ segir Elizabeth Deras, lögmaður Hernández.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.