Innlent

Dómar gegn íslenska ríkinu orðnir sex á þessu ári

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Frá Mannréttindadómstóli Evrópu.
Frá Mannréttindadómstóli Evrópu. Nordicphotos/AFP

Mannréttindadómstóll Evrópu telur íslenska ríkið hafa brotið á rétti Styrmis Þórs Bragasonar og Júlíusar Þórs Sigurðssonar til réttlátrar málsmeðferðar. Dómar MDE þessa efnis voru kveðnir upp í gær.

Styrmir Þór var dæmdur í eins árs fangelsi í Exeter málinu svokallaða en hann er fyrrverandi forstjóri MP Banka. Júlíus Þór var dæmdur í níu mánaða fang­elsi fyr­ir hlut­deild í refsi­verðu verðsam­ráði þegar hann var starfsmaður Húsasmiðjunnar.

Brot ríkisins á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fólust í því að Hæstiréttur byggði niðurstöðu sína á sönnunarmati lægra dómstigs án þess að vitni hafi komið fyrir Hæstarétt og gefið skýrslu.

Sú málsmeðferð sem málin lúta að er ekki lengur viðhöfð á Íslandi eftir tilkomu Landsréttar sem gegnir nú hlutverki áfrýjunardómstóls í sakamálum á Íslandi.

Þeir dómar sem fallið hafa í Strassborg á þessu ári vegna meðferðar sakamála hér á landi eru orðnir sex talsins. Tveir vegna skorts á sönnunarfærslu í Hæstarétti, einn vegna vanhæfis dómara, einn vegna ólögmætrar skipunar dómara og tveir vegna réttar til að vera ekki refsað tvívegis fyrir sama brot. Fyrsti dómur MDE gegn Íslandi í slíku máli féll árið 2017.

MDE taldi ríkið ekki brotlegt í máli lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Hall og féll dómur þar að lútandi í febrúar síðastliðnum. Efri deild réttarins hefur hins vegar fallist á að taka þann dóm til endurskoðunar.


Tengdar fréttir

Hæstaréttardómari vanhæfur í Al-Thani málinu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að Árni Kolbeinsson hæstaréttardómari hafi verið verið vanhæfur í Al-Thani málinu. Íslenska ríkið þarf að greiða Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni og Ólafi Ólafssyni tvö þúsund evrur í bætur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.