Fótbolti

Valsmenn eiga erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld

Hjörvar Ólafsson skrifar
Valsmaðurinn Ólafur Karl Finsen í kröppum dansi í fyrri leiknum. Því miður fyrir Valsmenn náði hann ekki að skora.
Valsmaðurinn Ólafur Karl Finsen í kröppum dansi í fyrri leiknum. Því miður fyrir Valsmenn náði hann ekki að skora. vísir/bára

Valur freistar þess í dag að snúa við taflinu í viðureign sinni við slóvenska liðið Maribor í seinni leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspynu karla sem fram fer ytra klukkan 18.15 að íslenskum tíma í dag.

Valsmenn lutu í lægra haldi 3-0 í fyrri leik liðanna og því er ljóst að verkefnið verður ærið hjá Hlíðar-endaliðinu á móti sterku slóvensku liði.

Fari svo að Valur falli úr leik í kvöld fer liðið í aðra umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem andstæðingurinn verður annað hvort búlgarska liðið Ludogorets eða ungverska liðið Ferencvaros. Þrjú önnur Íslendingalið verða í eldlínunni í kvöld en staða þeirra liða er misjöfn fyrir leiki kvöldsins.

Rúnar Már Sigurjónsson og samherjar hans hjá kasakska liðinu Astana eru 1-0 yfir í einvígi sínu við Dan Petrescu og lærisveina hans hjá rúmenska liðinu Cluj.

Rúnar Már gekk nýlega til liðs við Astana og vonast til þess að taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti á ferlinum.

Kolbeinn Sigþórsson, sem opnaði markareikning sinn fyrir sænska liðið AIK um síðustu helgi eftir um það bil þriggja ára markaþurrð með félagsliðum sínum, fær armenska liðið Ararat-Armenia í heimsókn.

Armenarnir fóru með 2-1 sigur af hólmi í fyrri leiknum. Þá leika Willum Þór Willumsson og liðsfélagar hans hjá hvítrússneska liðinu BATE-Borisov við pólska liðið Piast Gliwice í Póllandi en fyrri leik liðanna lyktaði með 1-1 jafntefli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.