Íslenski boltinn

Pepsi Max mörk kvenna: Er Donni með fámennasta hóp Íslandssögunnar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þór/KA missti marga leikmenn fyrir tímabilið.
Þór/KA missti marga leikmenn fyrir tímabilið. Vísir/ernir
Þór/KA ætlaði að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta í sumar en er nú ellefu stigum á eftir toppliðunum eftir tíu umferðir.

Þór/KA hefur því „tapað“ meira en stigi á leik í eltingarleiknum við topplið Vals og Breiðabliks.

Pepsi Max mörkin ræddu stöðuna á leikmannahóp Þór/KA en fyrirliðinn Arna Sif Ásgrímsdóttir meiddist á kálfa í síðasta leik.

„Hún er einn besti varnarmaðurinn í þessari deild og fyrirliði liðsins. Auðvitað er þetta gríðarlegt áfall,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur Pepsi Max marka kvenna.  

„Vonandi er þetta ekki að fara halda henni lengi frá því þær þurfa á henni að halda og þá sérstaklega í bikarævintýrinu,“ sagði Mist.

Halldór Jón Sigurðsson, betur þekktur sem Donni, hefur kvartað talsverð yfir því að vera með lítinn hóp. „Donni hefur talað um að hann sé með minnsta hóp Íslandssögunnar og það er enginn smá titill. Er þetta væl,“ spurði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Pepsi Max markanna.

„Auðvitað er þetta bara væl. Þú ert bara með ákveðinn hóp í höndunum og átt ekkert að vera að væla yfir því,“ sagði Ásthildur Helgadóttir, sérfræðingur Pepsi Max marka kvenna, og Mist benti á að Þór/KA væri með heilt varalið fyrir utan þennan hóp. Þar er hún að tala um lið Hamrana.

„Hann er vissulega ekki með fulla rútu af einhverjum risapóstum en það er nóg af efnilegum stelpum þarna. Það er ekki þannig að hann nái ekki í lið,“ sagði Mist.

Það má sjá alla umfjöllunina um hópinn hjá Þór/KA í myndbandinu hér fyrir neðan.



Klippa: Pepsi Max mörk kvenna: Minnsti hópur Íslandssögunnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×