Erlent

„Ég sagði þetta ekki, þeir gerðu það“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump hefur einkum beint spjótum sínum að Ilhan Omar, þingkonu Demókrataflokksins, sem flutti barnung til Bandaríkjanna frá Sómalíu.
Trump hefur einkum beint spjótum sínum að Ilhan Omar, þingkonu Demókrataflokksins, sem flutti barnung til Bandaríkjanna frá Sómalíu. Mynd/Samsett

Donald Trump Bandaríkjaforseti kveðst óánægður með stuðningsmenn sína sem kyrjuðu að forsetinn ætti að reka svarta þingkonu úr landi á baráttufundi í Norður-Karólínu í gærkvöldi. Þá sagðist hann jafnframt „ósammála“ þegar hann var spurður út í hróp stuðningsmannanna.

Trump hefur undanfarna daga gert þær Alexandriu Ocasio-Cortez, Ilham Omar, Rashidu Tlaib og Ayönnu Pressley, fulltrúadeildarþingkonur Demókrataflokksins, að skotspóni sínum.

Hann sendi m.a. frá sér rasísk tíst um að þær ættu að yfirgefa Bandaríkin og „fara aftur heim til sín“. Aðeins ein þeirra fæddist utan Bandaríkjanna.

„Sendu hana til baka!“

Trump hélt uppteknum hætti á baráttufundinum í Norður-Karólínu í gær og beindi þar sérstaklega spjótum sínum að Omar. Hún fæddist í Sómalíu en kom til Bandaríkjanna tíu ára gömul.

Eftir að hún komst inn á þing hefur hún verið gagnrýnin á stuðning Bandaríkjastjórnar við Ísrael og hefur sætt gagnrýni fyrir hvernig hún hefur talað um þrýstihóp fyrir ísraelsk stjórnvöld. Á fundinum laug Trump því upp á Omar að hún hefði lofað hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Eftir að hann fullyrti að Omar hefði gerst sek um gyðingaandúð gerði hann hlé á máli sínu því stuðningsmenn hans hrópuðu þá ákaft „Sendu hana til baka!“.Ekki ánægður með hrópin

Forsetinn sagðist „ósammála“ þegar hann var spurður út í atvikið á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. Hann fór þó ekki nánar út í það hverju hann væri nákvæmlega ósammála.

„Ég var ekki ánægður með það. Ég er ósammála því. En aftur á móti, ég sagði þetta ekki, þeir gerðu það,“ sagði Trump.

Þá sagðist hann hafa reynt að stöðva hróp stuðningsmanna sína, þrátt fyrir að hafa beðið í um tólf sekúndur á meðan þeir kyrjuðu og þangað til hann tók aftur til máls.

Kvaðst Trump jafnframt hafa „liðið örlítið illa“ þegar stuðningsmennirnir hófu hrópin.

Forsetinn og stuðningsmenn hans hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir athæfið. Sjálf hefur Omar kallað Trump bæði rasista og fasista eftir baráttufundinn í gær.


Tengdar fréttir

Svaraði spurningu blaðamanns með því að spyrja um uppruna hans

Kellyanne Conway, einn nánasti ráðgjafi Bandaríkjaforseta, sat fyrir svörum á blaðamannfundi í gær. Þar reyndi hún meðal annars að svara fyrir tíst forsetans þar sem hann sagði fjórum bandarískum þingkonum að snúa aftur til meintra upprunalanda sinna.

Fulltrúadeildin fordæmir ummæli Trump

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings greiddi atkvæði um að fordæma ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta í garð þingkvenna Demókrataflokksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.