Fótbolti

Real Madrid farið að kaupa stjörnur í kvennaliðið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Twitter/@KosovareAsllani
Real Madrid hefur loksins ákveðið að láta af karlrembunni og vera með kvennalið hjá félaginu. Forráðamenn félagsins eru þekktir fyrir að kaupa stórstjörnur fyrir karlaliðið og þeir ætla greinilega að fara sömu leið hjá konunum.

Real Madrid byrjar þó ekki alveg á núllpunkti. Real Madrid mun nefnilega taka yfir kvennaliðið CD Tacon og nafn liðsins mun ekki breytast í Real Madrid fyrr en næsta sumar.

Sænska stórstjarnan Kosovare Asllani var því í raun að semja við CD Tacon en tilkynnti það stolt á samfélagsmiðlum að hún væri fyrsti leikmaðurinn sem Real Madrid fær í sitt nýja kvennalið eins og sjá má hér fyrir neðan.





„Ég er stolt að geta tilkynnti það að ég verð fyrsti leikmaðurinn sem semur við Real Madrid/Cd Tacon. Spennt að skrifa söguna og fá að taka þátt í ferðalaginu frá byrjun. Það er draumur að fá að klæðast fallegustu fótboltatreyju í heimi frá og með næsta tímabili. Áfram Madrid,“ skrifaði Kosovare Asllani.

Sænska landsliðið vann brons á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í sumar og markahæsti leikmaður liðsins var einmitt Kosovare Asllani. Hún skoraði sem dæmi fyrsta markið í 2-1 sigri á Englandi í leiknum um þriðja sætið.

Kosovare Asllani heldur upp á þrítugsafmælið sitt eftir tíu daga en spilaði undanfarin ár með Linköpings FC í Svíþjóð en hafði þar á undan leikið með liðum eins og Chicago Red Stars, Paris Saint-Germain og Manchester City.

Kosovare Asllani hefur skorað 32 mörk í 126 landsleikjum með Svíum og er áttundi markahæsti leikmaður sænska landsliðsins frá upphafi.





CD Tacon er nýliði í spænsku úrvalsdeildinni á komandi tímabili eftir að hafa unnið spænsku b-deildina á síðustu leiktíð.

Bæði Barcelona og Atletico Madrid, helstu andstæðingar Real Madrid hjá körlunum er bæði komin með mjög öflug kvennalið og það fyrir mörgum árum.

Barcelona komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð og Atlético Madrid hefur unnið spænsku deildina undanfarin þrjú tímabil þar sem Barcelona hefur alltaf endaði í öðru sæti










Fleiri fréttir

Sjá meira


×