Erlent

Hætta við að banna skordýraeitur sem er talið valda heilaskaða í börnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Klórpýrifos er meðal annars notað við ræktun á vínberjum auk fimmtíu tegunda af ávöxtum, hnetum, korni og grænmeti.
Klórpýrifos er meðal annars notað við ræktun á vínberjum auk fimmtíu tegunda af ávöxtum, hnetum, korni og grænmeti. Vísir/AP
Umhverfisstofnun Bandaríkjanna hefur tilkynnt að hún ætli ekki að banna vinsælt skordýraeitur þrátt fyrir að vísindamenn stofnunarinnar telji að tengsl séu á milli þess og heilaskaða í börnum. Fyrri ríkisstjórn Baracks Obama hafði ákveðið að banna efnið.Í yfirlýsingu um ákvörðun sína segir umhverfisstofnunin að gögn sem styðja bann við notkun klórpýrifos séu ekki nægilega „gild, fullkomin eða áreiðanleg“. Stofnunin muni þó áfram fylgjast með hvort skaðleg áhrif séu af notkun efnisins sem er ekki lengur selt til heimilisnota. New York Times segir bændur nota efnið í miklu magni. Það er selt undir vöruheitinu Lorsban.Yfirvöld á Havaí bönnuðu notkun klórpýrifos í fyrra og Kaliforníu og New York eru sögð íhuga það sama. Þá er til skoðunar hjá Evrópusambandinu að banna notkun eitursins.Sérfræðingar umhverfisstofnunarinnar vísuðu til vísindarannsókna sem sýndu fram á að efnið gæti skaðað þroska heila barna og fóstra þegar ríkisstjórn Obama sagðist ætla að banna notkun þess árið 2015. Bannið hafði ekki tekið gildi þegar Scott Pruitt, þáverandi forstjóri Umhverfisstofnunarinnar, sneri ákvörðuninni við fyrir tveimur árum.Í tíð Trump hefur umhverfisstofnunin hætt við ýmsar aðgerðir sem er ætlað að verja loftslag jarðar og umhverfi í Bandaríkjunum, afnumið þær eða veikt. Breytingar hafa verið gerðar á vísindaráðgjafarráði stofnunarinnar og fulltrúum iðnaðar og hagsmunaaðila verið raðað þar inn í staðinn fyrir óháða vísindamenn.Þá er umhverfisstofnunin með í smíðum nýjar reglur sem myndu takmarka verulega notkun hennar á vísindarannsóknum á heilsuáhrifum á menn. Samkvæmt reglunum má stofnunin ekki byggja ákvarðanir á rannsóknum þar sem öll gögn eru ekki opinber. Rannsóknir á heilsu manna byggja í mörgum tilfellum á sjúkraskýrslum sem ekki má gera opinberar. Reglan myndi því gera slíkar rannsóknir ómarktækar þegar stofnunin tekur afstöðu til efna og mengunar sem getur haft áhrif á heilsu fólks.Þrátt fyrir að reglan sé ekki komin í gildi byggði umhverfisstofnunin á sömu rökum við ákvörðun sína um klórpýrifos nú. Gagnrýnendur núverandi stjórnvalda halda því fram að markmið reglnanna sé að binda hendur umhverfisstofnunarinnar og takmarka getu hennar til að setja reglugerðir.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.