Innlent

Fjölskyldu grunar að kattarmorðingi gangi laus í Vogum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Hulda Blön­dal, um­sjár­aðili kisunnar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið hún telji að eitrað hafi verið fyrir Bellu með frost­legi, líkt og hefur verið gert annars staðar á landinu. Hún segir að Bella hafi farið út í kringum mið­nætti á mið­viku­dag. Það hafi verið síðasta skipti sem þau sáu hana á lífi. Myndin er úr safni.
Hulda Blön­dal, um­sjár­aðili kisunnar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið hún telji að eitrað hafi verið fyrir Bellu með frost­legi, líkt og hefur verið gert annars staðar á landinu. Hún segir að Bella hafi farið út í kringum mið­nætti á mið­viku­dag. Það hafi verið síðasta skipti sem þau sáu hana á lífi. Myndin er úr safni. vísir/getty
Eitrað var fyrir átta mánaða gamalli læðu, Bellu, í Vogum á Vatns­leysu­strönd í síðustu viku, með þeim af­leiðingum að hún drapst. Hulda Blön­dal, um­sjár­aðili kisunnar, segir í sam­tali við Frétta­blaðið hún telji að eitrað hafi verið fyrir Bellu með frost­legi, líkt og hefur verið gert annars staðar á landinu. Hún segir að Bella hafi farið út í kringum mið­nætti á mið­viku­dag. Það hafi verið síðasta skipti sem þau sáu hana á lífi.

„Hún var með ól og merki og fór sjaldan langt frá húsinu okkar. Hún finnst svo fyrir utan hjá okkur á föstu­degi. Það kemur varla annað til greina en að eitrað hafi verið fyrir henni. Engir á­verkar fundust á henni. Hún hefur náð að komast heim, en dáið fyrir utan,“ segir Hulda.

Hulda segir að hana gruni að eitrað hafi verið fyrir henni því að frost­lögur valdi al­var­legri nýrna­bilun á skömmum tíma og svo stuttur tími leið frá því að Bella fór að heiman og þar til hún fannst dauð. Hún segist ekki skilja hvað liggi að baki slíkum verknaði.

„Ég skil ekki þennan verknað. Við fjöl­skyldan erum í rusli yfir þessu. Ég fór með henni út á mið­viku­dags­kvöldið og skildi ekkert af hverju hún hljóp í burtu, ég held hún hafi fundið lykt af fiski sem hefur verið sprautaður með frost­legi. Það hefur verið gert úti um allt land,“ segir Hulda og vísar þar til svipaðra mála sem hafa komið upp í Hvera­gerði, í Sandgerði og á höfuð­borgar­svæðinu.

Hulda segir að hún hafi ekki til­kynnt til lög­reglu eða MAST en að hún hafi fengið á­bendingu um að gott væri að láta kryfja hana hjá Keldum, rann­sóknar­stofu, en að kostnaðurinn við það sé 34 þúsund krónur. Þau á­kváðu að sleppa því og jörðuðu hana sjálf.

Hún segir að þó ekkert sé hægt að sanna, eins og staðan er núna, þá vill hún að aðrir íbúar í Vogum hugsi sig tvisvar um áður en þeir hleypi köttum sínum út. Nánar er rætt við Huldu á vef Fréttablaðsins, Frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×