Fótbolti

Er þetta arftaki Luis Suarez hjá Barcelona?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lautaro Martinez.
Lautaro Martinez. vísir/getty
Barcelona er að undirbúa hundrað milljóna punda tilboð í framherja Inter, Lautaro Martinez, ef marka má fjölmiðla á Englandi.

Lautaru, sem er nú með argentínska landsliðinu í Suður-Ameríkukeppninni, hefur leikið með Inter frá sumrinu 2018 en hann var keyptur til Ítalíu frá Racing í heimalandinu.

Framherjinn hefur ekki verið að raða inn mörkum fyrir bláklædda Mílanó-félagið en hann skoraði sex mörk í 27 leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Hann er hins vegar einungis 21 árs gamall og er talið að Börsungar vilji fá Martinez inn til að setja aukna pressu á núverandi framherja félagsins, Luis Suarez.

Martinez hefur vakið mikla athygli með Argentínu í Suður-Ameríkukeppninni þar sem hann hefur skorað tvö mörk á leið Argentínu í undanúrslitaleikinn.

Hann verður í eldlínunni annað kvöld er Argentína og Brasilía mætast í undanúrslitunum en leikurinn að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×