Erlent

Stórhættulegur snákur skríður laus um götur Cambridge

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þetta er ekki snákurinn sem um ræðir. Þeir eru þó afar svipaðir, enda af sömu tegund.
Þetta er ekki snákurinn sem um ræðir. Þeir eru þó afar svipaðir, enda af sömu tegund. Anadolu Agency/Getty
Kyrkislanga af tegundinni malayopython reticulatus gengur, eða öllu heldur skríður, nú laus um stræti Cambridge í Bretlandi.

Lögreglan í Cambridge leitar nú snáksins sem hvarf í gær. Leitinni hefur orðið lítið ágengt en þó hefur tekist að hafa uppi á eiganda snáksins sem hefur staðfest hvarf hans.

Malayopython reticulatus er lengsta snákategund heims en hún getur náð allt að sex og hálfs metra lengd að meðaltali. Þær eiga rætur að rekja til suðaustur Asíu, til að mynda Malasíu og Taílands. Snákurinn sem um ræðir er í kring um 2,7 metra, heldur styttri en sá lengsti sem fundist hefur, en sá var 9,6 metrar.

Lögreglan biðlar til þeirra sem kunna að hafa séð slönguna að hafa strax samband við neyðarlínuna.

Kyrkislöngur eru ekki eitraðar en þær geta vafið sér utan um bráð sína og kyrkt til bana áður en þær gleypa hana í heilu lagi. Snákum eins og þeim sem hér á í hlut líður best í skógarumhverfi nálægt ám og stöðuvötnum. Þær eiga auðvelt með sund og því ekki ólíklegt að snákurinn leiti á svæði þar sem aðstæður til þess er að finna.

Malayopython reticulatus er meðal fárra snákategunda sem geta valdið mönnum skaða. Þekkt tilfelli þar sem slíkir snákar hafa banað mannfólki eru nokkur en snákarnir geta gleypt meðalmanneskju í heilu lagi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×