Íslenski boltinn

Mikill munur á markasóknum tveggja bestu liðanna í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í Val halda boltanum lengi áður en þær skora mörkin sín.
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í Val halda boltanum lengi áður en þær skora mörkin sín. vísir/bára
Valskonur hafa verið með boltann í næstum því mínútu að meðaltali í markasóknum sínum í Pepsi Max deildinni í sumar.

Valur og Breiðablik mætast í kvöld í uppgjör tveggja efstu liða Pepsi Max deild kvenna í fótbolta. Bæði liðin eru með fullt hús stiga og það er því ljóst að það breytist í kvöld.

Leikurinn fer fram á Valsvellinum og hefst klukkan 19.15 en hann verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Instat hefur tekið saman ítarlega tölfræði um Pepsi Max deild kvenna í sumar og þar kemur ýmislegt fróðlegt í ljós.

Það er sem dæmi mjög athyglisvert að bera saman sóknir Vals og Breiðabliks sem eru þau lið sem hafa skorað flest mörk í deildinni í sumar.

Valskonur taka sér þannig mjög góðan tíma í sóknirnar sem skila liðinu marki.

Sóknir sem enda með marki hjá Val eru að meðaltali 54,2 sekúndur að lengd. Sóknir Blika sem skilað hafa marki eru á sama tíma aðeins 19,9 sekúndur að lengd. Hér munar því rúmlega 34 sekúndum.

Valskonur hafa að meðaltali náð 13,4 sendingum áður en þær skora í sumar en Blikar eru með 6,3 sendingar að meðaltali áður en þær skora mörkin sín.

Á þessu sést að Valsliðið er oft lengi með boltann áður en þær skora mörkin sín en það má búast við því að bæði lið þurfti einmitt að sýna þolinmæði til að opna varnir andstæðinganna í leiknum í kvöld.

Lið sem hafa verið lengst með boltann áður en þau skora í Pepsi Max deild kvenna 2019:

(Tölur frá Instat)

1. Valur 54,2 sekúndur

2. Þór/KA 21,1 sekúnda

3. Breiðablik 19,9  sekúndur

4. Selfoss 17,4 sekúndur

5. Keflavík 15,0 sekúndur

6. ÍBV 12,5 sekúndur

7. KR 10,1 sekúnda

8. Fylkir 8,5 sekúndur

9. Stjarnan 7,2 sekúndur

10. HK/Víkingur 5,1 sekúnda




Fleiri fréttir

Sjá meira


×