Erlent

Rússar sakaðir um að hylma yfir kafbátaslys

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússneskur sjóliði á gangi við Pétursborg. Talið er að áhöfn kafbátsins sem lést hafi komið þaðan.
Rússneskur sjóliði á gangi við Pétursborg. Talið er að áhöfn kafbátsins sem lést hafi komið þaðan. Vísir/EPA
Stjórnvöld í Kreml sæta gagnrýni heima fyrir vegna eldsvoða í kafbáti sem varð fjórtán manna áhöfn að bana á mánudag. Ekki var greint frá eldsvoðanum fyrr en í gær og hafa stjórnvöld veitt takmarkaðar upplýsingar um atvik.

Samkvæmt rússneskum yfirvöldum létust bátsverjarnir af völdum eiturgufa frá eldinum. Þau hafa lýst kafbátnum sem djúpsjávarrannsóknakafbát sem hafi verið við mælingar á sjávarbotninum í Barentshafi innan rússneskrar lögsögu.

Ekkert hefur komið fram um hvort að kafbáturinn hafi verið kjarnorkuknúinn eða hvaða gerðar hann var, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlarstjórnar, vísaði spurningu um hvort báturinn hafi verið kjarnaknúinn á varnarmálaráðuneytið. Norsk stjórnvöld segjast ekki hafa orðið vör við óvenjulega geislun.

Í rússneskum fjölmiðlum hefur heyrst gagnrýni á stjórnvöld og viðbrögðum þeirra líkt við það þegar sovésk yfirvöld þögðu þunnu hljóði um kjarnorkuslysið í Tsjérnóbíl árið 1986.

„Það er alls ekkert vitað í augnablikinu, hver, hvað…Ég skil ekki eitt: hvers vegna leið dagur og fyrst þá gáfu þeir út yfirlýsingu um þá látnu? Hvers vegna vitum við ekki nöfn þeirra? Er þetta eðlilegt?“ spurði Jevgení Butnman, þulur á útvarpsstöðinni Ekho Moskvy.

Fréttastofan RBC hélt því fram að kafbáturinn væri af gerðinni AS-12 og væri kjarnorkuknúinn. Hann væri hannaður til að kafa á miklu dýpi og er einn þeirra kafbáta sem mest leynd ríkir yfir í rússneska flotanum.

Nítján ár eru frá því að 118 rússneskir sjóliðar fórust um borð í kjarnorkuknúna kafbátnum Kursk í Barentshafi. Líkt og nú voru rússnesk stjórnvöld gagnrýnd fyrir hæg viðbrögð og lélegar björgunartilraunir. Þá líkt og nú var Vladímír Pútín forseti landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×