Innlent

Tjaldhótel býður gestum uppábúin rúm í tjöldum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Arnar Felix Einarsson, ferðaþjónustubóndi á Skeiðflöt.
Arnar Felix Einarsson, ferðaþjónustubóndi á Skeiðflöt. Stöð 2/Einar Árnason.
Uppábúið rúm, náttborð og lampi er kannski ekki það fyrsta sem kemur í hugann þegar við hugsum um tjaldútilegu. Þetta er raunar sá búnaður sem gestum býðst á tjaldhóteli, sem er búið að opna í Mýrdal, og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2. 

Á túninu á bænum Skeiðflöt er búið að reisa tólf tjöld en þegar ferðaþjónustubóndinn Arnar Felix Einarsson sýnir okkur inn sjáum við að gistingin er líkari því sem menn eiga að venjast á hótelherbergi, - hér eru engar venjulegar tjalddýnur.

Umhverfið er stórbrotið. Mýrdalsjökull í baksýn.Vísir/Vilhelm.
„Þetta eru bara alvöru hótelrúm hérna, hóteldýnur. Og hérna er allt til alls. Það er hiti í dýnunni þannig að fólki verður ekkert kalt hérna. Það er rafmagn og fólk getur verið að hlaða símana. Og það eru ullarteppi og sængur og hér kvartar enginn raun og veru yfir nokkru,“ segir Arnar. 

Ásamt eiginkonu sinni, Örnu Björgu Arnarsdóttur, og foreldrum sínum, Eyrúnu Felixdóttur og Einari K. Haukssyni, hóf Arnar gistirekstur á Skeiðflöt fyrir fjórum árum en þau byrjuðu með tjöldin í fyrrasumar.

Séð inn í eitt tjaldanna. Þarna eru náttborð, lampi og rafmagnsinnstungur, auk þess sem hiti er í dýnunum.Stöð 2/Einar Árnason.
Hér er líka boðið upp á fjögurra rúma fjölskyldutjald með parketgólfi, sem Arnar kallar „deluxe“-tjaldið. Ekki eru salerni í tjöldunum, baðherbergi með sturtum eru í nærliggjandi þjónustubyggingu. 

Tjaldhótel eru þekkt víða erlendis en hér sjást varla Íslendingar. Þetta eru aðallega erlendir ferðamenn sem velja þetta gistiform á Skeiðflöt, segir hann.

Séð yfir jörðina Skeiðflöt í Mýrdal.Vísir/Vilhelm.
Og þegar spurt er hvort tjöldin haldi í sunnlenskum rigningum segir Arnar að þau hafi sannað sig í rigningarsumrinu mikla í fyrra. 

„Og ekki dropi hér í gegn,“ segir hann. 

Hér má sjá inn í tjaldhótelið:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.