Fótbolti

Túnis og Fílabeinsströndin í 8-liða úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik Gana og Túnis.
Úr leik Gana og Túnis. vísir/getty
Túnis og Fílabeinsströndin tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Afríkumótsins í Egyptalandi í dag.

Túnis bar sigurorð af Gana eftir vítaspyrnukeppni, 4-5. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 og ekkert var skorað í framlengingunni.

Taha Khenissi kom Túnis á 73. mínútu með skoti í stöng og inn eftir fyrirgjöf frá Wajdi Kechrida. Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Rami Bedoui með sjálfsmarki.

Leikmenn Túnis voru svo öruggir á vítapunktinum og skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum. Farouk Ben Mustapha, sem var settur inn á undir lok framlengingarinnar, varði hins vegar spyrnu Calebs Ekuban, leikmanns Gana.

Zaha skorar sigurmarkið gegn Malí.vísir/getty
Wilfried Zaha skoraði eina mark leiksins þegar Fílabeinsströndin vann Malí, 0-1.

Þegar 14 mínútur voru til leiksloka fékk Zaha boltann inn fyrir vörn Malí og skoraði framhjá Djigui Diarra í marki Malí. Þetta var annað mark Zaha í Afríkumótinu.

Í 8-liða úrslitunum mætir Fílabeinsströndin Alsír. Túnis mætir spútnikliði Madagaskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×