Fótbolti

Atletico ætlar að sekta Griezmann fyrir brot á samningi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antoine Griezmann tilkynnti að hann væri á förum fyrir tveimur mánuðum en enn sem komið er hefur lítið gerst í málum hans
Antoine Griezmann tilkynnti að hann væri á förum fyrir tveimur mánuðum en enn sem komið er hefur lítið gerst í málum hans vísir/getty
Atletico Madrid ætlar að sekta Antoine Griezmann fyrir brot á samningi þar sem sá franski lét ekki sjá sig á æfingu spænska félagsins þrátt fyrir að vera formlega boðaður þangað. ESPN greinir frá þessu í dag.

Griezmann vill fara frá Atletico og greindi frá því í maí að hann yrði ekki með félaginu á næsta tímabili. Franski heimsmeistarinn hefur ítrekað verið orðaður við Barcelona og var búist við því að Börsungar myndu mæta strax 1. júlí og borga riftunarákvæði Griezmann, en þann dag lækkaði það úr 200 milljónum evra í 120 milljónir evra.

Það hefur hins vegar enginn mætt með peningapoka á skrifstofur La Liga.

Á föstudag sendi Barcelona inn beiðni um að fá að borga riftunarákvæðið í raðgreiðslum, en Atletico hafnaði því.

Heimildarmenn ESPN innan Barcelona segjast vissir um að félagsskiptin gangi í gegn í þessari viku. Atletico ætlar hins vegar ekki að fara í neinar samningaviðræður við Barcelona tengdar greiðslunni á riftunarákvæðinu.

Atletico boðaði Griezmann formlega til æfinga eftir sumarfrí á sunnudag, þann dag ferðuðust liðsmenn Atletico á sérstakt æfingasvæði þeirra í fjöllunum fyrir ofan Madrídarborg þar sem liðið æfir á undirbúningstímabilinu. Griezmann lét hins vegar ekki sjá sig.

Forráðamenn Atletico eru ekki sáttir og ætla að refsa leikmanninum fyrir með því að sekta hann. Samkvæmt samningi er það hæsta sem þeir geta sektað hann um í kringum 200 þúsund evrur.

„Við munum koma af stað agamáli þar sem Griezmann varð ekki við formlegu kalli hjá félaginu sem hann er samningsbundinn,“ sagði heimildarmaður Atletico við ESPN.

Samkvæmt lögum er Griezmann þó ekki skyldugur til þess að mæta til vinnu strax, hann á rétt á 30 frídögum að sumri og síðasti leikur hans var 11. júní með franska landsliðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×