Innlent

Víða slæmt ástand á vegum hálendisins

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Þessi fjölfarni landvegur norður af Heklu og Búrfelli er ansi stórgrýttur.
Þessi fjölfarni landvegur norður af Heklu og Búrfelli er ansi stórgrýttur. Aðsend/Einar Ólason
Skortur á viðhaldi og slæmt ástand á vegum hálendisins eru meðal afleiðinga utanvegaaksturs. Þetta segir Ólafur Guðmundsson sem hefur kannað ástand vega á hálendinu fyrir sveitarfélög landsins.

Í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis sagði hann vegi víðs vegar á hálendinu og á vinsælum ferðamannastöðum mjög slæma. Hann benti meðal annars á að hluti vegarins sem leiðir að Svínafellsjökli væri í raun ekki lengur vegur. „Fólk keyrir bara þar sem vegurinn var,“ sagði Ólafur. Ólafur sagði lokakafla vegarins að Dyrhólaey og aðkomuna og bílastæðin við Hoffellsjökul vera til „háborinnar skammar“.

„Þetta er bara til skammar hvernig við erum að reyna að hafa pening út úr þessum ferðamönnum okkar, þetta er einn aðalatvinnuvegur okkar núna og við hugsum ekkert um það að við þurfum að þjóna þessu fólki,“ sagði Ólafur.

Þá þyki honum merkingar, salerni og önnur aðstaða fyrir ferðamenn víða ábótavant.

„Upplýsingar, hreinlætisaðstaða, gönguleiðir, það er eins og okkur sér sama um þetta og maður eiginlega skammast sín fyrir að vera Íslendingur þegar maður horfi á aðstöðuna á þessum stöðum,“ sagði Ólafur. 

Þá segir Ólafur að allir þurfi að taka höndum saman til að bæta aðstöðu vega og á vinsælum náttúruperlum á Íslandi.

„Ég held þetta sé metnaðarleysi í okkur og það er ekkert hægt að skamma einhvern einn. Þetta er sveitarfélaganna, Alþingis, Vegagerðarinnar og okkar allra að sjá til þess að þessir hlutir séu bara í lagi,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×