Enski boltinn

Eigandi Liverpool: Englandsmeistaratitillinn aðal markmiðið á næsta tímabili

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
John Henry langaði mest í þann eyrnastóra en segir kominn tími til að gefa stuðningsmönnunum þann sem þeim langar mest í
John Henry langaði mest í þann eyrnastóra en segir kominn tími til að gefa stuðningsmönnunum þann sem þeim langar mest í vísir/getty
Aðalmarkmið Liverpool á næsta tímabili verður að vinna Englandsmeistaratitilinn segir eigandi félagsins John Henry. Eftir sigurinn í Meistaradeild Evrópu í vor sé kominn tími til að einbeita sér að úrvalsdeildinni.

Liverpool er næst sigursælasta félagið á Englandi talið í Englandsmeistaratitlum, með 18 Englandsmeistaratitla á eftir 20 titlum Manchester United.

Síðasti Englandsmeistaratitill Liverpool kom hins vegar árið 1990.

„Fyrir mér er stærra að vinna í Evrópu heldur en á Englandi, en ég held að stuðningsmennirnir vilji Englandsmeistaratitilinn,“ sagði Henry.

„Við munum einbeita okkur að því að vinna ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili.“

Liverpool náði 97 stigum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, en það var ekki nóg því Manchester City vann sér inn 98 stig.

„Strákarnir gáfu allt í þetta frá fyrsta degi tímabilsins í fyrra. Þetta er langt tímabil en þeir spiluðu eftir bestu getu og gáfu mikið í þetta.“

„Mér fannst þeir eiga skilið að taka titilinn heim, en við tókum þann stærsta svo ég er mjög ánægður,“ sagði Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×