Innlent

Helga aðeins 15 mínútur að landa fyrsta laxinum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Helga Steffensen var ekki lengi að landa fyrsta laxi ársins úr Elliðaánum.
Helga Steffensen var ekki lengi að landa fyrsta laxi ársins úr Elliðaánum. Vísir/BEB
Helga Steffensen er Reykvíkingur ársins 2019. Venju samkvæmt renndi Helga fyrir lax í Elliðaánum í morgun, fyrst manna þetta veiðisumarið. Með henni í för voru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. Það tók Helgu ekki nema 15 mínútur að setja í fyrsta laxinn, sem hún stillti sér upp með fyrir fjölda ljósmyndara sem saman var kominn við Elliðaárnar í morgun.

Helga stofnaði barnaleikhópinn Brúðubílinn árið 1980, en þar áður stýrði hún brúðuleikhúsinu Leikbrúðulandi. Sýningar Brúðubílsins eru sniðnar að þörfum yngstu borgaranna og eru oft þeirra fyrstu leikhúsferðir.

Á árunum 1987 – 1994 var Helga umsjónarmaður Stundarinnar okkar í Sjónvarpinu. Helga skrifaði bókina „Afmælisdagurinn hans Lilla” sem var gefin út árið 1984. Hún hefur líka haldið listsýningar bæði í Reykjavík og eina á Akureyri. Helga var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar, 2007 fyrir framlag til leiklistar og barnamenningar.

Reykvíkingur ársins var útnefndur í fyrsta sinn árið 2011. Tilgangurinn var að leita að einstaklingi sem hafði, með háttsemi sinni eða atferli, verið til fyrirmyndar á einhvern hátt og þakka fyrir þeirra framlag. Reykvíkingur ársins er útnefndur ár hvert.

Helga ásamt þeim Degi og Þórdísi Lóu.Vísir/BEB
Borgarstjóri renndi sjálfur fyrir lax. Það tók hann um fimm mínútur að krækja í einn.Vísir/BEB



Fleiri fréttir

Sjá meira


×