Innlent

Gæti séð fyrir endann á þurrkatíð á Vesturlandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikið hefur verið rætt um hættu á gróðureldum í Skorradal, en þar eru um 600 sumarbústaðir.
Mikið hefur verið rætt um hættu á gróðureldum í Skorradal, en þar eru um 600 sumarbústaðir. Vísir/Bjarni
Teljandi líkur eru á að samfelldu þurrkaskeiði, sem hefur verið viðvarandi á Vesturlandi, ljúki næstkomandi þriðjudag, ef eitthvað mark er takandi á veðurspám yfirhöfuð. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.Í samtali við Vísi segir Einar vera útlit fyrir rigningu á Vestur- og Norðvesturlandi á þriðjudaginn. Ekki sé um smá skúri að ræða, heldur verulega úrkomu sem mögulega gæti skipt máli. Ljóst er að úrkoma yrði mörgum á Vesturlandi kærkomin, en þurrkurinn hefur verið mörgum til ama, sérstaklega þegar kemur að ástandi gróðurs og áhyggjum íbúa og annarra á svæðinu af mögulegri eldhættu sem fylgt hefur úrkomuleysinu.Einar segir að úrkoman, ef einhver verður, muni koma með suðvestanáttinni og gæti hún bundið enda á langt þurrkatímabil vestan lands, til að mynda á Stykkishólmi. Þar hefur ekki rignt síðan 20. maí.

Áfram nokkuð þurrt á höfuðborgarsvæðinu

Einar segir að í það heila tekið sé útlit fyrir að áfram verði nokkuð þurrt á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að þriðjudagsrigningarinnar kunni að gæta þar eins og á Vesturlandi. Annars sé lítið útlit fyrir mikla úrkomu.Helsta langtímabreytingin sem Einar segir vera í kortunum fyrir höfuðborgarsvæðið sé að meira verði um ský og minna um sterkt sólskin.„Þetta er ekki eins og við eigum að venjast þegar það koma hérna lægðir með skilum suðvestan úr hafi. Þetta gerist allt undir háþrýstingi og þar af leiðandi segir reynslan manni það að þetta er allt ódrýgra og minna en maður getur annars reiknað með,“ segir Einar. Loftið sé stöðugra og minni raki í því en almennt gengur og gerist hér á landi.„Eins og spáin er frá evrópsku reiknimiðstöðinni þá verður þetta dálítil demba [á þriðjudag]. Bandaríska spáin, sem er sams konar líkan, gerir hins vegar ekki ráð fyrir þessu á þriðjudaginn. Þeir voru með þetta [úrkomu] í sínum spám en nú er eins og úrkomubeltið verði aðeins norðar og hitti ekki almennilega á landið,“ segir Einar sem bendir þó á að enn sé nokkuð langt í þriðjudaginn og nákvæmni veðurspánna eftir því.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.