Innlent

Útiloka ekki rigningu á skraufþurrum svæðum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búast má við áframhaldandi mildu veðri á suðvesturhorninu.
Búast má við áframhaldandi mildu veðri á suðvesturhorninu.

Fárra breytingar er að vænta í veðrinu að sögn veðurfræðings, sem segir að veður dagsins muni svipa til þess sem heilsaði upp á landsmenn í gær.

Á Norður- og Austurlandi eru horfur á þungbúnu veðri og dálítilli rigningu eða súld. Sunnan- og vestanlands verður skýjað með köflum og ekki er loku fyrir það skotið að stöku skúrir láti á sér kræla síðdegis. Ætla má að bændur og búalið fagni þessu, enda hefur lítið rignt á þessu svæði síðustu vikur. Er nú svo komið að óvissustig Almannavarna vegna hættu á gróðureldum er í gildi á Vesturlandi. 

Eitthvað gæti þó sést til sólar milli skýjanna. Með þessu verður svo boðið upp á hæga norðanátt.

Hitinn verður frá 5 stigum með norðurströndinni upp í 15 stig á Suðurlandi þegar best lætur.

„Það er skemmst frá því að segja að spáin fyrir morgundaginn er nánast sú sama og fyrir daginn í dag,“ segir veðurfræðingur.

„Ef við kíkjum á spána fyrir helgina, þá er það helst að frétta að það lítur út fyrir að það létti til og hlýni norðan og austanlands. Yfirleitt verður þurrt á landinu og hlýrri loftmassi færist smám saman yfir, sem þýðir að hámarkshiti dagsins verður hærri en í þeirri tiltölulega svölu norðanátt sem ríkir á landinu í dag,“ segir hann ennfremur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag (sumarsólstöður):
Norðvestan 3-8 m/s. Dálítil rigning á Norður- og Austurlandi. Skýjað með köflum sunnan- og vestanlands og stöku skúrir, einkum síðdegis. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á laugardag:
Vestlæg átt 3-8 m/s og bjart með köflum. Hiti 10 til 16 stig. Norðlægari og svolítil rigning norðaustantil á landinu framan af degi og svalt í veðri, en léttir til þar seinnipartinn.

Á sunnudag:
Suðvestan 3-8. Skýjað með köflum vestanlands, en víða bjart í öðrum landshlutum. Hiti 12 til 18 stig.

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Vestlæg átt, víða léttskýjað og hlýtt í veðri. Skýjað að mestu með vesturströndinni og svalara.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.