Erlent

Skilin eftir sofandi í flugvélinni eftir lendingu

Andri Eysteinsson skrifar
Vél Air Canada, ólíklega sú sem Adams mátti dvelja í.
Vél Air Canada, ólíklega sú sem Adams mátti dvelja í.

Flugfélagið Air Canada rannsakar nú hvernig það skeði að farþegi var skilinn eftir sofandi í vél félagsins eftir að allir höfðu farið frá borði. BBC greinir frá.

Farþeginn, Tiffani Adams, var á leið frá Quebec til borgarinnar Toronto 9. Júní síðastliðinn þegar hún sofnaði, eins og mörgum er tamt að gera í flugferðum. Þegar Tiffani hins vegar vaknaði beið hennar ekkert nema köld og dimm mannlaus flugvél.

„Ég vaknaði um miðnætti, nokkrum tímum eftir lendingu, ísköld og enn föst í sætisbeltinu í myrkri flugvélinni,“ segir Adams.

Adams segist hafa náð að nota síðustu dreggjar símarafhlöðu sinnar til þess að hringja í vinkonu sína og greina henni frá ástandinu, eftir að síminn hafði lagt upp laupana gat hún ekki hlaðið hann vegna þess að slökkt var á flugvélinni enda lent og mannlaus.

Adams náði því næst að vekja athygli á stöðu sinni með ljósmerkjum og það var loks starfsmaður í farangursþjónustu sem varð hennar var.

Flugfélagið Air Canada hefur staðfest að frásögn Adams sé sönn og hefur hafið rannsókn á málinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.