Erlent

Enn bætist í frambjóðendaflóru Demókrataflokksins

Andri Eysteinsson skrifar
Joe Sestak ásamt fjölskyldu sinni í Iowa í dag.
Joe Sestak ásamt fjölskyldu sinni í Iowa í dag. AP/Matt Slocum

Enn hefur bæst í hóp þeirra demókrata sem gefa kost á sér til þess að verða forsetaefni flokksins í forsetakosningunum sem fara fram í nóvember á næsta ári, nú eru frambjóðendurnir orðnir 25. AP greinir frá.

Joe Sestak er sá síðasti sem boðið hefur fram krafta sína og telur sig vera rétta manninn til þess að ná kjöri gegn Donald Trump og verða 46. Forseti Bandaríkjanna. Sestak þessi er fyrrverandi þingmaður Demókrataflokksins fyrir Pennsylvaníu-ríki og var áður hátt settur innan Bandaríska sjóhersins.

Sestak greindi frá framboði sínu í bænum Waterloo í Iowa í dag. Þar sagði Sestak mikilvægt að Bandaríkin gerðu sitt í baráttunni við hnatthlýnun og ógnina sem stafar af Kína.

„Forsetinn er ekki vandamálið, hann er einkenni vandamáls sem fólk hefur með stjórnkerfi sem er ekki sanngjarnt gagnvart fólkinu í landinu,“ sagði Sestak.

Sestak sat í fulltrúadeild þingsins í tvö kjörtímabil og sóttist eftir sæti í Öldungadeild þingsins gegn Pat Toomey árið 2010, Sestak varð undir í þeirri baráttu og var meinuð þátttaka af flokknum í kosningum 2016 þegar hann hugðist ná fram hefndum gegn Toomey.

Sestak sagði jafnframt að seinkoma hans inn í kosningabaráttuna stafaði af veikindum dóttur hans sem glímir við krabbamein í heila.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.