Innlent

Hiti gæti farið yfir 25 stig

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hitaspáin síðdegis í dag. Það er hlýtt á Austurlandi en öllu svalara fyrir vestan.
Hitaspáin síðdegis í dag. Það er hlýtt á Austurlandi en öllu svalara fyrir vestan. Skjáskot/veðurstofa íslands

Í dag er búist við suðvestlægum áttum með súld eða rigningu vestantil á landinu. Þykknar upp austantil seinnipartinn og snýr í suðlægari vind og fer að rigna á mestöllu landinu, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Hiti fór yfir 20 stig austanlands í gær og gera spár ráð fyrir að hann gæti farið yfir 25 stig á stöku stað þar í dag. Á morgun verður svo vestlægari átt, skýjað að mestu og einhverjar skúrir og áfram svipaður hiti.

Um helgina er þó útlit fyrir norðvestlæga átt og svalara veður. Bjart með köflum suðvestanlands, skýjað norðaustantil en úrkomulítið. Líkur eru þá á að hitinn á Norðausturlandi fari ekki mikið yfir 7 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Suðvestan 5-10 m/s og dálítil væta, en úrkomulítið síðdegis og léttir til austanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Suðaustur- og Austurlandi. 

Á laugardag:
Norðaustanátt 5-13, hvassast norðvestantil og við suðausturströndina. Skýjað en úrkomulítið. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi. 

Á sunnudag:
Norðaustan 5-13, hvassast norðvestantil. Dálítil rigning framan af degi sunnantil, en annars skýjað og úrkomulítið. Hiti 8 til 13 stig sunnan- og vestanlands, en 3 til 6 stig norðaustantil. 

Á mánudag:
Norðlæg átt 8-13 við NA-ströndina, en annars hægari breytileg átt. Skýjað með köflum, þurrt að kalla og hlýnar lítillega. 

Á þriðjudag:
Suðlæg eða breytileg átt og úrkomu lítið, en rigning sunnanlands síðari hluta dags. Hlýnar í veðri. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir sunnánátt og rigningu, en léttara yfir og þurrt norðan- og austantil. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.