Enski boltinn

Pochettino: Daniel Levy á lokaorðið í öllum félagsskiptum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Daniel Levy og Mauricio Pochettino
Daniel Levy og Mauricio Pochettino vísir/getty
Mauricio Pochettino segist ekki ráða því hvaða leikmenn koma inn hjá Tottenham heldur eigi stjórnarformaðurinn Daniel Levy lokaorðið.

Tottenham hefur ekki fengið til sín leikmann síðan í janúar 2018 en nálgast nú fyrstu kaupin. Hinn átján ára Jack Clarke er sagður hafa staðist læknisskoðun á fimmtudag og ætti að verða tilkynntur hjá Tottenham hvað úr hverju.

Þá á Tottenham að hafa samþykkt að borga 65 milljónir punda fyrir Tanguy Ndombele hjá Lyon samkvæmt heimildum Sky Sports. Ndombele yrði þá dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Pochettino var í viðtali hjá spænska miðlinum TV3 þar sem hann sagði að hann hefði ekki sama frjálsræði og sumir af helstu keppinautum hans.

„Hjá Tottenham, Chelsea og Arsenal er ekki sama frjálsræði og Pep [Guardiola[ og [Jurgen] Klopp hafa hjá Manchester City og Liverpool,“ sagði Argentínumaðurinn.

„Pep er með algjöra stjórn á öllum áætlunum City. Skipuritið er öðruvísi hjá Tottenham og öðrum félögum. Sala og kaup á leikmönnum er algjörlega í höndum Pep og Klopp og sama á við um að ákveða hvort leikmenn fái nýja samninga.“

Pochettino var spurður að því hver tæki ákvörðunina hvort leikmenn eins og Harry Kane yrðu seldir. „Forsetinn, Daniel Levy. Ég hef ekki völd til þess.“

„Ég fæ að segja mína skoðun en ákvörðunin er Daniels.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×