Erlent

Endurkoma ebólu í Austur-Kongó sögð ógnvekjandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fórnarlömb ebóluveirunnar grafin í Austur-Kongó.
Fórnarlömb ebóluveirunnar grafin í Austur-Kongó. Vísir/EPA

Ebólufaraldurinn sem nú geisar í Austur-Kongó er sá versti frá því á árunum 2013 til 2016 og ekkert bendir til þess að hann sé í rénun, að sögn framkvæmdastjóra góðgerðasjóðsins Wellcome Trust. Hátt í 1.400 manns hafa látið lífið í nýjasta faraldrinum í Austur-Kongó.

Fyrsta ebólutilfellið greindist í ágúst í fyrra. Sjúkdómurinn hefur dregið um sjötíu prósent þeirra sem hafa smitast til dauða. Faraldurinn nú er sá næstversti í sögunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Útbreiðslan hefur áfram að aukast en það hefur aðeins gerst einu sinni áður svo löngu eftir fyrsta tilfellið, í faraldrinum skæða sem dró rúmlega 11.300 manns til dauða í Vestur-Afríku frá 2013 til 2016.

Jeremy Farrar, framkvæmdastjóri Wellcome Trust sem styrkir læknisfræðirannsóknir, segir útbreiðslu veirunnar nú „sannarlega ógnvekjandi“. Ekkert bendi til þess að lát verði á faraldrinum í bráð.

Smit hefur greinst í nágrannaríkinu Úganda þar sem fimm ára gamall drengur lést af völdum veirunnar. Hann hafði ferðast til Austur-Kongó með fjölskyldu sinni og eru ættingjar hans einnig taldir smitaðir. Farrar segir það ekki koma á óvart. Alþjóðleg viðbrögð þurfi til að hefta útbreiðsluna.

„Austur-Kongó ætti ekki að þurfa að standa í þessu eitt,“ segir hann.

Vopnaðar sveitir og vantraust á erlendum hjálparstarfsmönnum er sagt hafa torveldað aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar. Ráðist hefur verið á hátt í tvö hundruð heilsugæslustöðvar á þessu ári.


Tengdar fréttir

Þúsund látin en hjálparstarf í hættu 

Eitt þúsund hafa nú látið lífið í ebólufaraldrinum í Austur-Kongó, þeim næstversta í sögunni. Þrátt fyrir alvöru málsins segir framkvæmdastjóri WHO að fjármagn fyrir lífsnauðsynlega hjálparstarfsemi berist ekki.

Óttast að ebóla berist yfir til Úganda

Óttast er að ebólufaraldurinn í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó berist yfir til nágrannaríkisins Úganda. Rúmlega 60 þúsund manns frá Norður Kivu héraði hafa hrakist burt af heimilum sínum frá því vopnuð átök hófust á svæðinu í lok marsmánaðar.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.