Innlent

Stefna á að semja um þinglok í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem boðar formenn flokkanna til fundar klukkan 16 til að reyna að semja um þinglok.
Það er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem boðar formenn flokkanna til fundar klukkan 16 til að reyna að semja um þinglok. vísir/vilhelm
Klukkan fjögur hefst fundur formanna þeirra flokka sem sæti eiga á þingi í Alþingishúsinu.

Á fundinum er stefnt að því að semja um þinglok og eru allar líkur taldar á því að flokkarnir nái saman um hvernig ljúka skal þingi samkvæmt heimildum Vísis en fjallað var um málið fyrr í dag á vef Kjarnans.

Fundað var um málið frá klukkan 11:30 í dag og til um það bil 14:30 og miðaði þá nokkuð í samningaviðræðunum.

Í raun er um tvíhliða samkomulag að ræða, ef af verður, þar sem ríkisstjórnin semur annars vegar við Miðflokkinn um þriðja orkupakkann og hins vegar við hina stjórnarandstöðuflokkana fjóra um önnur mál.

Samkomulagið felur það í sér að síðsumarþing verði þar sem orkupakkamálin verða rædd í tvo til þrjá daga og þá munu nokkur þingmannamál frá stjórnarandstöðu verða afgreidd fyrir þinglok.

Sjá einnig:Stjórnarandstaðan óttast fullnaðarsigur Miðflokksins

Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um þjóðarsjóð verður ekki afgreitt á þessu þingi en frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits verður hins vegar afgreitt.

Þá verður frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskeldi einnig klárað fyrir þinglok sem og breytt fjármálastefna og frumvarp menntamálaráðherra um eitt leyfisbréf til kennslu.

Ljúka átti þingi í síðustu viku en það hefur reynst þrautin þyngri að semja um þinglok, meðal annars vegna andstöðu Miðflokksins við orkupakkann og svo andstöðu annarra stjórnarandstöðuflokka við nokkur önnur mál.

Stefnt er á að ljúka þingi á laugardagskvöld samkvæmt heimildum Vísis en þing gæti þó dregist fram í næstu viku þar sem stór mál bíða afgreiðslu á lokametrunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×