Fótbolti

Jón Þór: Sóknin vonbrigði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Þór vildi sjá betri sóknarleik en hrósaði liðsheild Íslendinga í leiknum gegn Finnum.
Jón Þór vildi sjá betri sóknarleik en hrósaði liðsheild Íslendinga í leiknum gegn Finnum. vísir/getty
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, var ekki sáttur með sóknarleikinn í markalausa jafnteflinu við Finna í Turku í dag.

„Sóknarleikurinn var vonbrigði. Við vorum ekki nógu skapandi í leiknum og klaufar að komast ekki oftar bak við vörnina þeirra,“ sagði Jón Þór í samtali við Vísi eftir leikinn.

„Fyrir vikið varð þetta baráttuleikur en við sýndum karakter, liðsheild og héldum hreinu sem er jákvætt.“

Jón Þór sagði að íslenska liðið hefði þurft að teygja betur á því finnska.

„Það vantaði frumkvæði í hlaupunum bak við vörnina þeirra. Við hefðum þurft að gera það til að draga vörnina aftar til að skapa okkur pláss á miðjunni. Það tókst ekki og fyrir vikið gátu Finnarnir leyft sér að halda varnarlínunni framarlega,“ sagði Jón Þór.

Boltinn þarf að ganga hraðarHann sagði þrátt fyrir smávægileg meiðsli hér og þar ættu allir leikmennirnir í íslenska hópnum að vera klárir í seinni leikinn gegn Finnum í Espoo á mánudaginn. Þar vill hann sjá betri sóknarleik hjá sínu liðinu.

„Við þurfum að skerpa á áherslunum í sókninni og halda áfram að vinna í okkar málum. Við þurfum að láta boltann ganga hraðar og reyna betur á vörnina þeirra,“ sagði Jón Þór.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, 18 ára leikmaður Breiðabliks, kom inn á í sínum fyrsta landsleik í dag. Hún lék síðasta hálftímann í stöðu vinstri bakvarðar.

„Hún kom með kraft inn í liðið og er mjög efnilegur leikmaður. Það var ánægjulegt að sjá hana og gott að það séu að koma upp ungir og efnilegir leikmenn,“ sagði Jón Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×