Innlent

Allir sáttir um þinglok nema Miðflokkurinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Logi Einarsson og Halldóra Mogensen á þingi eftir löng fundarhöld formanna flokkanna um þinglok í dag.
Logi Einarsson og Halldóra Mogensen á þingi eftir löng fundarhöld formanna flokkanna um þinglok í dag. Stöð 2
Ríkisstjórnin og fjórir flokkar stjórnarandstöðunnar hafa náð samkomulagi um hvaða mál verða tekin fyrir áður en þingi verður slitið. Miðflokkurinn stendur utan samkomulagsins og heldur uppi sérstökum kröfum, meðal annars um þriðja orkupakkann. Formaður Samfylkingarinnar segir aðalatriði að Miðflokknum verði ekki leyft að taka þingið í gíslingu.

Fundir formanna stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi lauk um klukkan hálf sex nú síðdegis. Halldóra Mogensen, starfandi þingflokksformaður Pírata, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að fjórir stjórnarandstöðuflokkar hafi gert málefnalegan samning við ríkisstjórnina um hvernig eigi að ljúka þingi.

Afgreiða á frumvarp um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, fiskeldi en frumvarp fjármálaráðherra um þjóðarsjóð fer af dagskránni. Þá verður nokkrum þingmannafrumvörpum gefið rými á dagskránni.

Ríkisstjórnin þarf aftur á móti að semja sérstaklega við Miðflokkinn sem haldi uppi kröfum um frestun afgreiðslu þriðja orkupakkans svonefnda og frumvarps um að heimila innflutning á ófrosnu kjöti. Engin niðurstaða liggur enn fyrir, að sögn Halldóru.

„Aðalatriðið er að þessir fjórir flokkar í stjórnarandstöðu hafa náð samkomulagi við ríkisstjórnina um það að taka til efnislegrar meðferðar mjög mörg mikilvæg mál og leyfa ekki Miðflokknum að taka þingið í gíslingu. Það verður svo bara að leysast langt fram á sumarið ef ekki næst samkomulag við þá um það mál,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×