Innlent

Þrír til viðbótar í gæsluvarðhaldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alls eru því sjö í gæsluvarðhaldi í tveimur óskyldum málum sem þó snúa bæði að skipulagðri glæpastarfsemi.
Alls eru því sjö í gæsluvarðhaldi í tveimur óskyldum málum sem þó snúa bæði að skipulagðri glæpastarfsemi. Vísir/Vilhelm
Þrír eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skipulagðri brotastarfsemi, en þremenningarnir, sem voru handteknir fyrr í vikunni, voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 19. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Rannsókn lögreglu snýr m.a. að fíkniefnamisferli og peningaþvætti, en ráðist var í þrjár húsleitir vegna þessa og var um umfangsmiklar aðgerðir að ræða.

Rannsókn málsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur, en hinir handteknu eru á fertugs- og fimmtugsaldri. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Lögreglan tekur skýrt fram að málið er óskylt öðru máli sem einnig snýr að skipulagðri brotastarfsemi og hefur verið til umfjöllunar. Þar eru fjórir í gæsluvarðhaldi, þar af tveir af sakborningunum í Pólstjörnumálinu. Handtökur áttu sér stað síðustu helgi og verða þeir í gæsluvarðhaldi að óbreyttu til 21. júní. 

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í baráttu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi.

„Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×