Íslenski boltinn

Valdimar: Helgi mun sjá eftir þessu

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Tveggja marka maðurinn Valdimar Þór.
Tveggja marka maðurinn Valdimar Þór. vísir/vilhelm
„Bara æðislegt, geggjað,“ voru fyrstu orð Valdimars Þórs Ingimundarsonar, leikmanns Fylkis, eftir frábæran sigur á Breiðabliki, 4-3, í kvöld.

Valdimar Þór var maður leiksins eftir frábæra frammistöðu gegn toppliði Breiðabliks í kvöld. Valdimar lagði upp eitt mark og skoraði sjálfur tvö mörk.

„Það er geggjað að fá fyrstu þrjá punktana á móti toppliðinu á heimavelli“ sagði Valdimar enn þetta var fyrsti sigur liðsins á heimavelli.

Fylkismenn mættu ákveðnir til leiks og fengu fyrsta dauðafærið á fyrstu mínútum leiksins og skoruðu eftir aðeins 6 mínútna leik. Valdimar segir að leikmenn hafi verið vel undirbúnir og hafi sótt í Árbæjar geðveikina fyrir þennann leik.

„Við fórum í Árbæjar-stemninguna, fórum þetta bara á geðveikinni. Við pressuðum þá vel og gáfum þeim ekkert eftir,“ sagði Valdimar Þór.

„Við fórum mjög vel yfir þá í vikunni og vissum nákvæmlega hvað við ætluðum að gera. Þetta var smá rússíbani að spila þennan leik,“ sagði Valdimar sem lýsir þessu sem ákveðnum rússíbana að spila í sjö marka leik.

Breiðblik jafnaði leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks og viðurkennir Valdimar að smá skjálfti hafi komið upp við það.

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn mjög illa sem var mjög vont fyrir okkur en við vorum svo fljótir að bregðast við. Þetta var síðan orðin svolítið stressandi þegar þeir skoruðu þriðja markið en við unnum leikinn og það er fyrir öllu.“

Þjálfari liðsins, Helgi Sigurðsson, sagði við Valdimar eftir leik að hann þyrfti að fara í viðtal þar sem hann ætti ekki eftir að eiga svona góðan leik aftur, Valdimar var ekki sammála honum þar.

„Hann mun sjá eftir þessum orðum“ sagði Valdimar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×