Innlent

Þrjátíu blómaskreytar hafa skreytt Hveragerðisbæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Blómaskreytingarnar í Hveragerði eru mjög frumlegar og fallegar.
Blómaskreytingarnar í Hveragerði eru mjög frumlegar og fallegar. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Þeir sem vilja njóta glæsilegra blómaskreytinga og gróðurs gætu lagt leið sína í Hveragerði um helgina því þar stendur yfir blómasýningin „Blóm í bæ“, sem er helguð grænum lífsstíl enda er undirtitill helgarinnar Græna byltingin. Um þrjátíu blómaskreytar, íslenskir og erlendir hafa unnið síðustu vikur við að skreyta bæinn.
 
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setti „Blóm í bæ“ formlega síðdegis í gær að viðstöddu fjölmenni í skrúðgarðinum í Hveragerði. Hátíðin er nú haldin áttunda sumarið í röð og er reiknað með fjölda fólks í bæjarfélagið um helgina.
 
„Það er verið að halda hér viðburðinn „Blóm í bæ“, sem er í ár tileinkaður því, sem við köllum „Grænu byltingunni“, grænum lífsstíl, umhverfinu og loftslaginu og öllu því sem við tengjum við það. Við köllum þetta ekki hátíð, við köllum þetta viðburð af því að það er ekki þannig að hér séu skemmtiatriði á sviði og fólk sé skemmt stöðugt heldur á fólk að skemmta sér sjálft. Hér eru gönguferðir og upplifanir þar sem fólk þarf að hafa svolítið fyrir því að skoða skreytingarnar“, segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.
 
 

Sigurður Ingi mætti í Hveragerði í gær til að setja viðburðinn "Blóm í bæ" formlega. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Um þrjátíu blómaskreytar víðs vegar að úr heiminum hafa séð um að skreyta Hveragerðisbæ síðustu vikurnar. Aldís segir að það sé engin vafi að Hveragerðisbær sé blómabærinn á Íslandi.
 
Já, við erum klárlega blómabærinn já, enda sérðu það, það er blómlegt og dásamlegt hérna.
 
Allar nánari upplýsingar um Blóm í bæ er að finna á heimasíðu Hveragerðisbæjar eða á Facbookarsíðu viðburðarins

Aldís Hafsteindóttir, bæjarstjóri flutti stutt ávarp við setninguna í gær. Magnús Hllynur


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.