Fótbolti

Sampdoria og Fiorentina vilja fá Totti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Totti á blaðamannafundinum í gær þar sem hann tilkynnti um brotthvarf sitt frá Roma.
Totti á blaðamannafundinum í gær þar sem hann tilkynnti um brotthvarf sitt frá Roma. vísir/getty

Sampdoria og Fiorentina hafa bæði falast eftir kröftum Francescos Totti sem hætti hjá Roma í gær eftir 30 ár hjá félaginu.

Totti hélt blaðamannafund í gær þar sem hann tilkynnti um uppsögn sína og gagnrýndi í leiðinni bandaríska eigendur Roma. Hann sagðist ekki hafa fengið að koma að neinum ákvörðunum hjá félaginu og verið haldið á hliðarlínunni.

Á fundinum sagðist Totti einnig hafa fengið boð um starf hjá öðru félagi.

„Annar eigandi vill leggja traust sitt á mig,“ sagði Totti en talið er að umrætt félag sé Sampdoria. Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum setti Massimo Ferrero, forseti Sampdoria, sig fyrst í samband við Totti fyrir mánuði síðan. Fiorentina ku einnig hafa áhuga á að fá Totti til starfa.

„Mér stendur margt til boða. Ég skoða öll tilboðin sem mér hafa borist í rólegheitum og vel það sem veitir mér mesta ánægju. Ég mun leggja mig allan fram fyrir það félag,“ sagði Totti. „Ég verð ekki atvinnulaus. Ég hef fengið tilboð frá ítölskum félögum og skoða allt.“

Totti er bæði leikja- og markahæstur í sögu Roma. Hann lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.