Innlent

Áframhaldandi norðankæla í næstu viku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hinn íslenski vetur lætur ekki að sér hæða þrátt fyrir að sumarið sé komið.
Hinn íslenski vetur lætur ekki að sér hæða þrátt fyrir að sumarið sé komið. Vísir/Vilhelm

Sex af síðustu átta nóttum hefur næturfrost verið viðvarandi á Norðvesturlandi, samkvæmt Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi. Í stuttum pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag segir hann nokkurs konar kuldakast á landsvísu hafa hafist 25. maí síðastliðinn en þremur dögum fyrr á Austurlandi.

„Vestan til á Norðurlandi hafa næturfrost verið tíð þessa daga í byggð. Til að mynda á Gauksmýri í Línakradal skammt norðan Hvammstangagatnamóta á þjóðveginum. Þar hefur fryst 6 af síðustu 8 nóttum,“ segir Einar í færslunni og vísar þá til línurits sem má sjá með færslunni neðar í þessari frétt.

Mælingar á öðrum stöðum á þessum slóðum sýni svipaða mynd. Búast megi við áframhaldandi næturfrosti og auknum norðanvindi á svæðinu fram á föstudag.

Einar segir að þessi kuldatíð, sem ef spár ganga eftir verður orðin tveggja vikna löng á föstudag, valdi því að vöxtur grass stöðvist að mestum hluta. Því sé gott að gras hafi sprottið duglega áður en kuldabolinn lét á sér kræla.

„Annar fylgifiskur er þurrkur, einkum suðvestan- og vestanlands. Þar hefur gengið mjög á raka í jarðvegi í sterkri sólinni að undanförnu,“ segir Einar en bendir á að spárnar geri ráð fyrir breytingum á veðurfari í kringum næstu helgi, sem kennd er við Hvítasunnu.

Fréttaljósmyndari Vísis fangaði þá þessa mynd sem sýnir glögglega hinn snævi þakta topp Ingólfsfjalls, sem er til marks um þá kuldatíð sem varir nú víðs vegar um land, þrátt fyrir þá veðursæld sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa notið undanfarna daga.

Vísir/Vihelm


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.