Innlent

Tveggja ára laus í fangi föður síns

Birgir Olgeirsson skrifar
Talsverður erill var hjá lögreglu.
Talsverður erill var hjá lögreglu. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Þar á meðal hafði lögreglan afskipti af bifreið rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi þar sem tveggja ára barn sat laust í fangi föður síns í aftursæti bifreiðarinnar. Enginn öryggisbúnaður var fyrir barnið í bifreiðinni.

Rétt eftir miðnætti var karlmaður í annarlegu ástandi handtekinn í miðborginni eftir ítrekuð afskipti lögreglu þar sem hann var að ógna fólki og berja frá sér með hækju sem hann hafði meðferðis.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans lagast.

Á þriðja tímanum í nótt var karlmaður handtekinn í hverfi 101 grunaður um eignaspjöll en maðurinn hafði verið að reyna að brjótast inn í bifreið og var búinn að skemma bifreiðina.  Maðurinn er einnig grunaður um hylmingu og brot á vopnalögum.  Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Klukkan fjögur í nótt var karl rotaður og var árásaraðili handtekinn á vettvangi. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Á annan tug ökumanna var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna en einn af þeim var ökumaður í Hraunbæ. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að aka á brott en hafnaði á kantstein, affelgaði dekk og neyddist til að stöðva. 

Hann reyndi að hlaupa á brott en var fljótlega handtekinn. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna,  ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og fara ekki að fyrirmælum lögreglu.  3 farþegar voru í bifreiðinni og fóru þeir sína leið að lokinni skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×