Innlent

Um fjórtán hundruð hundar á Víðistaðatúni um helgina

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sól og blíða var á Víðistaðatúni í Hafnarfirði í dag þar sem um fjórtán hundruð hundar keppa á hundasýningu Hundaræktarfélags Íslands um helgina. Mismikið keppnisskap var í hundunum sem þó allir nutu sín í veðurblíðunni.

Sýningar á vegum Hundaræktunarfélagsins eru haldnar fjórum sinnum á ári. Í dag fór fram tvöföld sumarsýning þar sem til dæmis var keppt var um besta hund sinnar tegundar, ungviði og öldung.

Hverju er verið að leitast eftir í svona keppni?

„Því sem verið er að leitast eftir er að vera sem næst standardinum. Það er til lýsing á hundinum, hvernig hann á að vera og það er alltaf verið að leitast við að ná þessari fullkomnun á hundinum,“ sagði Margrét Ásgeirsdóttir, hundasnyrtir.

Hundarnir höfðu í nægu að snúast í dag og höfðu þeir því fæstir tíma fyrir viðtal eins og sést á myndskeiðinu með fréttinni.

Sjá mátti allar stærðir af hundum í dagSIGURJÓN ÓLASON
Er ekkert keppnisskap í fólki og hundum?

„Jú að sjálfsögðu er keppnisskap. Maður kemur til að vinna að sjálfsögðu, en það vinna ekki allir. Það er alltaf einhver einn sem stendur uppi sem sigurvegari og maður sættir sig bara við það að vera ekki alltaf sá sem vinnur,“ sagði Margrét.

Hefur hann unnið marga titla?

„Já alveg þónokkra. Þetta er verlaunahundur,“ sagði Ólöf Gyða Risten, hundaræktandi.

Sýningin fer einnig fram á Víðistaðatúni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×