Íslenski boltinn

Ágúst: Gulli var í HK og gaf þeim aðeins

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Ágúst og félagar eru komnir í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Ágúst og félagar eru komnir í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins. vísir/bára
Ágúst Þór Gylfason þjálfari Breiðabliks var ánægður með sigur sinna manna gegn HK í kvöld. Sigurinn þýðir að liðið er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

„Ég var ánægður með þetta. Komumst áfram sem var mikilvægast af öllu og skorum þrjú mörk sem er flott. Fáum eitt mark á okkur úr föstu leikatriði sem var fúlt en í þessum bikar snýst þetta bara um að komast áfram og það gerðum við í dag,“ sagði Ágúst eftir leik.

„Grannaslagur og mikið undir. Það var allt annað að sjá okkur í dag frá því í Kórnum um daginn og ég er bara sáttur með strákana.“

Gunnleifur Gunnleifsson gaf klaufalega hornspyrnu sem HK skoraði upp úr en Gústi var svosem ekkert svo ósáttur með markvörðinn sinn.

„Menn eru að gefa hér og þar. Gulli var í HK og gaf þeim aðeins en auðvitað fúlt að fá á sig mark úr föstu leikatriði og við fengum 1 eða 2 á okkur á móti þeim í seinasta leik og við þurfum að loka fyrir það.“

Gústi segist ekki getað kvartað yfir neinu varðandi byrjun Blikaliðsins en þeir sitja í 2.sæti Pepsi Max deildarinnar og eru komnir í 8-liða úrslit bikarsins.

„Það er að engu að kvarta, við erum með góðan og stóran hóp og við erum búnir að standa okkur nokkuð vel fram að þessu.“

Hann var næst spurður út í leik liðsins næstkomandi sunnudag þegar FH kemur í heimsókn á Kópavogsvöll.

„Það leggst bara vel í mig. Ég hlakka til að fá FH hingað í heimsókn fyrir framan troðfulla stúku og geggjaða stemningu. Það er númer 1,2 og 3 að spila okkar leik og það verður erfiður toppslagur.“

Gústi sagði að lokum að hann hefði engan óskamótherja þegar kemur að 8-liða úrslitunum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×