Innlent

Telur eðlilegra að eftirláta kjósendum að bregðast við háttsemi þingmanna en ekki siðanefndum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er annar tveggja þingmanna flokksins í forsætisnefnd Alþingis
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er annar tveggja þingmanna flokksins í forsætisnefnd Alþingis Vísir/Vilhelm

Brynjar Níelsson, 2. varaforseti Alþingis, telur eðlilegra að eftirláta kjósendum að dæma um háttsemi þingmanna en að sérstök siðanefnd Alþingis fjalli um orð þeirra. Þetta kom fram í viðtali við Brynjar í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Forsætisnefnd Alþingis, sem Brynjar situr í, fjallar í dag um mál Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur sem er talin hafa gerst brotleg við siðareglur Alþingis með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þórhildur Sunna skilaði greinargerð til forsætisnefndar vegna málsins í morgun.

Ummæli Þórhildar Sunnu um Ásmund féllu í umræðuþættinum Silfrinu á RÚV 25. febrúar 2018. Þau voru voru á þá leið að uppi væri „rökstuddur grunur“ um að Ásmundur hefði dregið sér fé með því að láta ríkissjóð greiða óhóflegan aksturskostnað sinn. Ásmundur hefur frá árinu 2013 fengið tæpar 23,5 milljónir endurgreiddar frá ríkissjóði vegna aksturskostnaðar á eigin bifreið. 

Að mati siðanefndar Alþingis braut Þórhildur Sunna gegn 5. gr. og 7. gr. siðareglna Alþingis. Í c-lið 5. gr. siðareglnanna segir að þingmenn megi „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni.“ Í 7. gr. segir að þingmenn skuli í „öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er talin hafa brotið siðareglur Alþingis með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson þingmann Sjálfstæðisflokksins.Vísir/vilhelm

Getur staðfest niðurstöðu siðanefndar eða fellt hana úr gildi

Forsætisnefnd Alþingis getur staðfest niðurstöðu siðanefndarinnar eða fellt hana úr gildi. Reglulegur fundur forsætisnefndar hófst kl. 11:45 í dag en á dagskrá fundarins var meðal annars álit siðanefndar í máli Þórhildar Sunnu. Hún skilaði greinargerð til forsætisnefndar í morgun en ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða nefndarinnar í máli hennar mun liggja fyrir.

Brynar Níelsson 2. varaforseti Alþingis er annar tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í forsætisnefnd. Brynjar sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að mál Þórhildar Sunnu væri gott dæmi um þann vanda sem gæti skapast þegar sérstakri nefnd væri falið að fjalla um hátterni þjóðkjörinna fulltrúa í stað þess að eftirláta kjósendum að dæma um háttsemi þeirra.

„Þetta mál endurspeglar það sem sumir bentu á í upphafi, sem voru ekki hrifnir af þessu fyrirkomulagi, þar á meðal ég, að fara þessa leið með þjóðkjörna fulltrúa í ástandi eins og er hér í pólitík, margir þingmenn halda að allir aðrir séu siðlausari en þeir sjálfir, þegar búið er að setja svona siðareglur og ætlast til þess að eitthvað fólk úti í bæ ákveði hvað sé í lagi og hvað ekki, það verður bara eitthvað pandórubox opnað sem væri betur sleppt að opna. Ég er ekki á móti þessum siðareglum en ég hef sagt að ef menn vilja hafa siðareglur, af því menn eru svo uppteknir af því að vera siðlegir, þá er í lagi að hafa bara siðareglurnar, punktur. Síðan myndi bara almenningur sjá um það og hver og einn myndi meta þetta fyrir sig,“ sagði Brynjar.

Viðtal við Brynjar Níelsson og Helgu Völu Helgadóttur úr þættinum Bítinu í morgun má nálgast hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Þórhildur skilar greinargerð til forsætisnefndar

Forsætisnefnd Alþingis fundar kl. 11.45 í dag þar sem gera má ráð fyrir að ráðgefandi álit siðanefndar Alþingis um ummæli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur verði til umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×